154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

fjármögnun velferðarkerfisins.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég get alveg staðið hér og tekið undir það og bakkað það upp að mér þykir góð hugmynd almennt að lækka skatta og gjöld. Þar erum við hv. þm. Kristrún Frostadóttir einfaldlega ósammála í grundvallaratriðum. Hv. þingmaður segir að skattalækkanirnar þýði að við höfum tekið út úr velferðarkerfinu 90 milljarða. Þetta er einfaldlega alrangt og það er ótrúlegt af öllu því sem hv. þingmaður getur komið hér fram með og lagt á borð, að það sé teiknað þannig upp að við hefðum tekið út úr velferðarkerfum 90 milljarða. Bíddu, hvað höfum við verið að gera? Við höfum bætt í alls staðar í velferðarkerfinu. Fjármunir sem hafa verið settir í Landspítalann, í heilbrigðiskerfið almennt, í aðra þjónustu á sviði velferðarmála, í það fara peningarnir. Við verjum meiri hluta alls sem við öflum af vinnandi fólki í þessu landi í þessi kerfi og við höfum bætt í þau þannig að það er einfaldlega rangt að við höfum tekið út úr velferðarkerfinu 90 milljarða. Við höfum einmitt gert hið öfuga, við höfum bætt í velferðarkerfið.

Hv. þingmaður segir síðan að við höfum lækkað skatta mest á þá sem mest hafa. Tekjusagan sýnir svart á hvítu að bæði hafa aðilar vinnumarkaðarins komið því þannig fyrir að laun tekjulægstu tíunda hafa hækkað hlutfallslega meira en annarra tekjutíunda og sömuleiðis hafa tekjuskattsbreytingar sem ríkisstjórnin hefur farið í einmitt nýst þeim tekjulægstu meira heldur en öðrum tekjuhópum. Það er sú pólitík sem hér hefur verið keyrð og þess vegna áttu þessir 90 milljarðar, sem hv. þingmaður nefnir að séu ekki lengur teknir í skatta, áður heima á heimilum tekjulægstu hópanna að uppistöðu til. (Gripið fram í: Nei.) Það er rangt að við höfum tekið 90 milljarða úr velferðarkerfinu og það er rangt að við höfum verið að lækka skatta mest á þá sem hæst laun hafa (Forseti hringir.) á kostnað þeirra sem minnst hafa.