154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

brottfall laga um heiðurslaun listamanna.

50. mál
[11:20]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að hafa löng orð um þetta mál annað en að mér finnst flutningsmaður vera á algjörum villigötum. Ég held að þetta væri mjög slæmt skref. Í fyrsta lagi finnst mér ekki heppilegt að vera að blanda saman starfslaunum listafólks og heiðurslaununum sem slíkum. Þetta eru tvö ólík kerfi og gegna mismunandi hlutverkum. Annars vegar gegna starfslaunin því hlutverki að efla og auka möguleika listafólks í sínu daglega amstri. Oft er þetta fólk sem leggur út á mjög óræðar brautir þegar það ákveður að taka sér þetta fyrir hendur. Það er lítið um það að þetta fólk geti gengið inn í föst störf, þó að það sé auðvitað til í ákveðnum listgreinum, og það má ekki gleyma því að kannski er framsæknasta listafólkið oft að greiða leið fyrir annað listafólk. Það má alveg halda því fram að listamenn gegni oft sama hlutverki og háskólafólk sem sinnir hluta af sínu starfi í þágu rannsókna. Þau varða leiðina fyrir annað fólk.

Listin á auðvitað öðrum þræði, stundum a.m.k., að vera pólitísk. Hún er spegill á samtímann og mér finnst það óþarfaviðkvæmni hér að stilla hlutunum upp með þeim hætti að það skapist einhver vandi vegna þess að listamaður tekur ákvörðun um að gagnrýna eða lyfta upp hlutum í samtímanum sem við stjórnmálamenn höfum stundum ekki einu sinni komið auga á. Þar fyrir utan er listin bara falleg í sjálfu sér. Ég man fyrir nokkrum árum þegar ég var formaður Arkitektafélagsins og sat í Sambandi íslenskra listamanna. Þá ræddum við það hvort við ættum að ákveða einn dag á ári sem væri listlausi dagurinn þannig að þegar fólk vaknaði upp þá heyrði það ekkert í útvarpinu sínu, enga músík, það væri búið að fjarlægja allar myndir af veggjunum og þegar það keyrði í vinnuna væri búið að taka burt allar stytturnar. Kannski verður þetta flóknast ef við þyrftum að fjarlægja allar þær byggingar sem geta flokkast undir listaverk þannig að þetta væri kannski ekki framkvæmanlegt.

En ég held að fólk ætti kannski að gera sér í hugarlund annað slagið hvernig lífið liti út ef listarinnar nyti ekki við. Það hefur komið skýrt fram hjá Ágústi Einarssyni hagfræðingi hvaða hlutverki listirnar gegna í rauninni í efnahagslegu sambandi líka, þó að mér finnist það kannski ekkert endilega vera hinn eini rétti mælikvarði á því hvort það á að hampa hlutum. En það skiptir máli. Þær skipta líka gríðarlegu máli til að styðja undir aðrar atvinnugreinar í landinu eins og ferðaþjónustu. Mér finnst það í rauninni bara þróun sem er ekkert endilega til þess fallin að hætta við hlutinn þó að í upphafi hafi það verið hugsað sem ellilífeyrir fyrir listafólk. Eðli viðurkenningarinnar hefur einfaldlega breyst. Við viðurkennum og veitum þessu fólki viðurkenningu bara fyrir þeirra framlag til menningar í landinu sem mun lifa með okkur oft á tíðum í margar aldir og miklu lengur, a.m.k. heldur en kannski þau orð sem hér eru töluð í þessum ræðustóli akkúrat í augnablikinu eða þeirra ríkisstjórna sem koma og fara. Okkar merkasta listafólk er kannski augljósasta leiðin til að styrkja sjálfsmynd okkar og þjóða almennt. Það er þess vegna sem önnur ríki heiðra sína listamenn og það eigum við líka að gera.

Það er heldur ekki rétt sem hv. þingmaður segir, að það liggi ekkert hlutlægt mat til grundvallar þegar þessi hópur er valinn. Það er hins vegar rétt að við höfum kannski ekki staðið undir því að fara nógu vel með það hlutlæga mat sem okkur hefur þó borist í hendur, vegna þess að það er fagráð þriggja einstaklinga, að mig minnir, sem gerir tillögu til Alþingis um það hverjir eiga að hljóta þetta hverju sinni. Alþingi hefur hins vegar ekki alltaf farið eftir því og kannski sjaldnast og það er kannski það sem við þurfum að breyta. Kannski ættum við að fela slíkum faghópi að ákveða þetta og láta það svo standa, vegna þess að sá hópur leggur til grundvallar framlag listafólksins til menningar og lista í landinu og síðan er hópnum líka falið að jafna innan hópsins milli kynja og milli listgreina, sem sem betur fer fer fjölgandi á Íslandi.

Mér fyndist það því gríðarlega stórt skref aftur á bak ef þetta frumvarp yrði samþykkt og ég hef í rauninni enga trú á því vegna þess að ég held að það finnist mjög menningarsinnað fólk í öllum flokkum sem skilur eðli þessara hluta. Þeir fjármunir sem fara yfir höfuð í listsköpun á landinu eru ekki það miklir. Nægir að nefna að það er t.d. áskilið að 1%, minnir mig frekar en 1,5%, af byggingarkostnaði fari í Listskreytingasjóð. En ég held að það sé nú í fæstum tilfellum farið eftir því og við ættum kannski að fylgja því betur eftir, ekki síst á þeim tímum sem fólki finnst við arkitektar búa til of mikið af litlausum byggingum. Þannig að ég held að við ættum að skerpa á vinnulaginu við að ákveða hverjir fái þetta og hverjir ekki. Það er mjög einfalt að gera einfaldlega með því að hlusta betur á faghópinn sem leggur einmitt hlutlægt mat á það hverjum hlotnast þessi heiður og hverjum ekki. Þetta er líka hvetjandi fyrir ungt listafólk sem er eftir kannski fimm, sex ára nám að fara út í gríðarlega óvissu. Það eru engin fyrirtæki eða stofnanir sem bíða eftir þessu fólki og bjóða því fasta vinnu sem tryggir þeim öruggt lífsviðurværi alla ævi. Það ættum við að virða og auðvitað að þakka því listafólki sem er á þessum lista okkar núna og mörgum, mörgum öðrum sem ekki komast inn á hann fyrir ómetanlegt framlag sem við munum muna eftir og mun lifa með kynslóðum löngu, löngu eftir okkar dag.