154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

brottfall laga um heiðurslaun listamanna.

50. mál
[11:30]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað getum við heiðrað listamenn á ýmsan hátt, hvert og eitt okkar gætu gert það bara með því að lesa bækurnar og skoða málverkin og fara á tónleikana. En hér erum við að tala um að lyfta upp fólki sem fagnefnd hefur komist að að hefur skilað ótrúlega merkilegu lífsstarfi sem skiptir sjálfsmynd þjóðarinnar máli. Ég held að ef hv. þingmaður myndi spyrja bara almenna listamenn, þótt þau hafi aldrei ratað á þennan lista og muni ekki gera það, hvort þau vildu leggja þetta niður að svarið yrði nei, afdráttarlaust. Og af því að í upphafi spurði hv. þm. Vilhjálmur Árnason hvernig ég hafi fengið það út að hann væri að bera saman starfslaunin annars vegar og heiðurslaunin hins vegar þá er það bara mjög einfalt, vegna þess að er alveg rétt hjá hv. þingmanni, hann talar um það í greinargerðinni hver munurinn á þessu sé, en hann segir hér í ræðustóli í andsvarinu að hann hafi viljað koma því á framfæri hvernig hægt væri að þróa starfslaunin frekar og efla þau á kostnað þá heiðurslaunanna, þannig að það er auðvitað augljóst mál hvað ég átti við.

En það er óþarfi að rífast um það. Ég held að aðalatriðið sé að við þróum áfram, eins og ég sagði í ræðu minni, með hvaða hætti við getum tilnefnt og veitt framúrskarandi listafólki heiðurslaun án þess að það sé hafið yfir vafa að það liggi faglegt mat þar á bak við. Það gerist frekar með því að þingnefnd Alþingis hlusti á fagnefndina en taki ekki alltaf sjálfstæðar ákvarðanir sem byggja jafnvel á því hvað mörg SMS berast með tilteknum nöfnum.