154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

brottfall laga um heiðurslaun listamanna.

50. mál
[11:34]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, auðvitað er aldrei neitt hafið yfir vafa. En í stað þess að kasta kerfi sem skiptir máli fyrir listamenn þá væri kannski tilraunarinnar virði að reyna að vinda ofan af pólitískum duttlungum, ef þeir ráða ferðinni. Það er hægt, eins og ég benti á áðan, með því að reiða sig meira á faghópinn sem er tilnefndur með ákveðnum hætti. Það væri t.d. alveg hægt að leggja það bara alfarið í hendur Samband íslenskra listamanna að gera það og aftengja þetta alveg stjórnmálunum. Nú veit ég ekki hvernig það er gert. Það getur meira að segja vel verið að það sé þannig.

En það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þingmanni að fólk kemur ekki inn og fer út af þessum lista bara svona eftir því sem vindar blása vegna þess að hér er ekki verið að greiða fólki laun fyrir að vinna að list sinni og það er heldur ekki verið að verðlauna það fyrir eitthvert ákveðið listaverk. Það er verið að heiðra það fyrir lífsstarf sem hefur greitt leiðina fyrir fólk sem kemur á eftir, sem er líklegt til að halda sjálfsmynd okkar sem þjóðar á lofti meðal annarra þjóða sem heiðra meira eða minna allar sitt listafólk. Mér þykir gott að heyra það sem kom fram í andsvarinu, þó að ég hafi þóst vita það, við hv. þingmaður er ekki ósammála um að við eigum að heiðra listamenn. Við skulum þá bara láta staðar numið hér og láta ágreininginn snúast um hvort þetta er rétta leiðin eða ekki. En ég vildi bara koma upp til að lýsa því yfir að mér finnst þetta ekki vera rétta leiðin og mér fyndist það vera skref aftur á bak.