131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Gatnamót Kringumýrarbrautar og Miklubrautar.

[15:22]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Það liggur fyrir að hér hefur verulegum fjármunum nú þegar verið varið í þetta verkefni og það væri æskilegt að fá þær upplýsingar hjá hæstv. ráðherra á hvaða bili það er.

Það er í sjálfu sér ánægjulegt ef menn ætla að fara sem allra fyrst í bráðabirgðaaðgerð á næsta ári og að á sama hátt eru menn ekki hættir að undirbúa það að fara út í framtíðarverkefni hvað þetta varðar. Það segir sig sjálft og allir vita það, allir sem hafa keyrt í gegnum Reykjavík, að það er mikil þörf á mislægum gatnamótum á þessu svæði. Þetta eru þau gatnamót á landinu þar sem flest slysin verða, og þar sem í tísku er að reikna út þjóðhagslegan ávinning er ekki nokkur vafi að það er mikill ávinningur af því að fá þessa miklu samgöngubót. Hún nýtist ekki bara Reykvíkingum, heldur svo miklu fleirum, bæði í nágrannasveitarfélaginu og í rauninni landinu öllu.