131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[16:11]

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti því einmitt fyrir mér hvernig hægt væri að orða þetta með einhverjum þeim hætti sem sneiddi hjá þessum vanköntum sem eru núna á greininni en ég komst ekki að neinni niðurstöðu um það og hafði kannski ekki heldur mikinn tíma til að velta því fyrir mér. En ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir nefndina að fá góðar umsagnir, að fá umsagnir frá þeim aðilum sem eiga þarna hagsmuna að gæta og kannski ekki síður frá þeim fagfélögum þar sem eru löggiltar starfsstéttir vegna þess að ég veit t.d. að hjúkrunarfræðingar telja að ýmis meðferð sem þeir veita hefur í raun og veru, þó að hún sé innan þeirra starfssviðs, ákveðna samsvörun í ýmsu sem græðarar eru að gera, og þá sérstaklega hjúkrunarfræðingar sem hafa aukið við menntun sína á einhverju tilteknu sviði.

Ég tel því að það ætti einmitt að leita til lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara og fleiri stétta til að fá sjónarmið þeirra á því hvernig þetta ætti að hljóða. Ég hef ekki lausn á því en vildi nota tækifærið og benda á að þetta er kannski ekki nákvæmlega eins og við viljum hafa það og í rauninni ekki í samræmi við sannleikann í málinu, þó svo, eins og ég sagði áðan, að það séu ákveðnir erfiðleikar með aðferðafræði við að sannreyna óhefðbundnar meðferðir. Hvernig ætlum við að sannreyna það t.d. að nudd hafi áhrif á ónæmiskerfið? Reyndar er það kannski óheppilegt dæmi vegna þess að það eru einmitt rannsóknir sem benda til þess að nudd hafi jákvæð áhrif á ónæmiskerfið. En þetta er þá verkefni nefndarinnar að skoða.