132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Staða jafnréttismála.

[14:03]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Jónínu Bjartmarz, fyrir að taka hér jafnréttismál til umræðu. Ég vil líka geta þess í upphafi að við munum fá tækifæri til að fjalla aftur um jafnréttismál á vettvangi þingsins næstu daga þar sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur beint til mín þremur fyrirspurnum um jafnréttismál. Þær varða framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum, framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna og jafnréttisfræðslu fyrir ráðherra og stjórnendur opinberra stofnana. Þar mun ég greina frá ýmsum tölulegum staðreyndum og verkefnum á sviði jafnréttismála sem unnin hafa verið eða ákveðið hefur verið að vinna að á næstu missirum.

Ég fagna því að fá tækifæri til að tala ítrekað um þessi mál á vettvangi Alþingis. Það færi vel á því að við tækjum þau mannréttindamál, sem jafnréttismál eru, oftar til umfjöllunar hér. Ég varpa því hér fram. Eitt er víst að verkefnin eru óþrjótandi og leiðirnar sem menn geta farið eru ótal margar, verkfærin sem við getum notað á þeirri leið okkar margvísleg. Við þurfum vel útbúna verkfæratösku ætlum við að ná árangri í þessum efnum.

Ég hef í starfi mínu sem jafnréttisráðherra fengið tækifæri til að fylgjast með alþjóðlegri umræðu um jafnréttismál og sömuleiðis með margvíslegu jafnréttisstarfi innan lands. Það er að mínu mati afar mikilvægt að sem flestir láti sig þessi mál varða en að ekki sé einungis um þau rætt í afmörkuðum hópum út frá tilteknum stjórnmálaflokkum eða stjórnmálaskoðunum. Jafnréttismál varða okkur öll, feður og mæður, syni og dætur, unga sem aldna, og við eigum að leyfa mismunandi röddum að heyrast og leyfa fólki að hafa ólíkar skoðanir þegar jafnréttismál eru annars vegar. Við hljótum að þola það.

Ég hef líka séð hve mörg ráðuneyti málaflokkurinn varðar í raun, eins og Stjórnarráðið er nú skipulagt. Til að svara hv. fyrirspyrjanda hef ég sagt opinberlega að ég telji að skoða beri af fullri alvöru að flytja jafnréttismálin til forsætisráðuneytis. Jafnréttismál eru ekki málaflokkur sem endilega tilheyrir einu fagráðuneyti. Jafnréttismálin varða alla málaflokka og öll svið þjóðfélagsins. Að mínu viti náum við ekki fullum árangri fyrr en við vinnum út frá þeirri sýn.

Við heyrum oft að Norðurlöndin séu í fararbroddi og að Ísland sé í efstu sætum í heiminum þegar staða jafnréttismála er borin saman milli landa. Að mínu mati eiga þær staðreyndir að hvetja okkur til enn frekari dáða. Við hljótum að hafa náð árangri og við hljótum að eiga að halda áfram. Við eigum að læra af reynslunni, viðhalda því góða en bæta það og efla sem ekki hefur skilað árangri eða fært okkur nægilega framþróun.

Ég tel hins vegar að okkur hafi skort rannsóknir og upplýsingar til að byggja á við stefnumótun okkar í jafnréttismálum. Í tilefni af kvennafrídeginum 24. október ákvað ríkisstjórnin að veita 10 millj. kr. til að stofna sérstakan rannsóknasjóð, Jafnréttissjóð. Þetta er mál sem ég taldi mikilvægt að fengi framgang og það gekk eftir á vettvangi ríkisstjórnar. Markmið sjóðsins er að styrkja kynjarannsóknir almennt og er gert ráð fyrir að fyrst um sinn verði sérstök áhersla lögð á að veita annars vegar fé til rannsókna á stöðu kvenna á vinnumarkaði, bæði að því er varðar launakjör og stöðu, og hins vegar til rannsókna á áhrifum gildandi löggjafar hér á landi, eins og t.d. fæðingarorlofslaganna þar sem kveðið er á um sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs. Jafnréttissjóðurinn verður vistaður í forsætisráðuneyti og það er í góðu samræmi við þá skoðun að jafnréttismálin eigi að tilheyra öllu Stjórnarráðinu, öllum snertiflötum við samfélag okkar.

Þegar jafnréttismálin eru annars vegar er að mínu mati ekkert eitt mál mikilvægara en að ráðast gegn kynbundnum launamun. Hann er ekki lögmál en svo virðist sem það sem við höfum þó gert, sem er ótal margt, hafi ekki haft tilskilin áhrif, og enn minni áhrif á almennum markaði vinnumála en hinum opinbera.

Til að fylgja aðgerðum eftir og ekki síður til þess að hvetja til þeirra hef ég lagt til að komið verði á gæðavottun jafnra launa. Stofnanir og fyrirtæki sem fá slíka viðurkenningu geta kynnt sig sem áhugaverðan vinnustað. Þannig verður árangur fyrirtækja og stofnana í jafnréttismálum eftirsóknarverður og hvati til frekari aðgerða. Í félagsmálaráðuneytinu er nú unnið að útfærslu íslenskrar gæðavottunar jafnra launa og verður unnið að því í nánu samráði við jafnréttisráð og Jafnréttisstofu, sem og atvinnurekendur, launafólk og háskólasamfélag. Ég er sannfærður um að slík vottun geti gagnast vel sem tæki til framfara við að koma í veg fyrir áhrif kyns á launaákvarðanir enda þótt það hvarfli ekki að mér eitt augnablik að það feli eitt í sér hina einu, sönnu töfralausn.

Ég hef ýtt úr vör mörgum öðrum verkefnum á þessu sviði sem lúta fyrst og fremst að ráðuneytum í Stjórnarráðinu og stofnunum þeirra. Þar hljótum við að geta gengið úr skugga um að ekki sé kynbundinn launamunur. Þetta hef ég gert í félagsmálaráðuneytinu og mun gera þar áfram því að þetta er viðvarandi verkefni, hæstv. forseti.

Hvað undirstofnanir ráðuneytisins varðar er áætlað að verkefnið standi yfir í vetur en gera má ráð fyrir að þáttur hverrar stofnunar standi í skemmri tíma. Hafist var handa nú í nóvember og byrjað á Vinnumálastofnun. Mér er kunnugt um að önnur ráðuneyti og stofnanir hafa þegar hafist handa eftir að ég ritaði samráðherrum mínum bréf og hvatti til þess.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum nota þann stutta tíma sem ég hef hér til að koma á framfæri þeirri skoðun að til að ná fram raunverulegu jafnrétti kynjanna þurfi að virkja karlana. Ég greip því hugmynd frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, á lofti er hún kvað vera kominn tíma til að karlar hittust á fundum til að ræða þessi mál á sama hátt og þeir sjá ástæðu til að fjalla um önnur málefni. Ég hef ákveðið að byrja hér innan lands og halda karlaráðstefnu þann 1. desember nk. Ég hef þegar fengið góða menn til liðs við mig við að undirbúa slíka ráðstefnu og vænti þess að hún njóti góðrar aðsóknar karla á öllum aldri og úr öllum stéttum.

Ég ítreka þakkir mínar fyrir að fá tækifæri til að ræða jafnréttismál hér í þingsölum, hæstv. forseti.