132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:14]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar en hnaut um eitt atriði. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er lögð til 98 millj. kr. aukafjárveiting til að jafna út rekstrarhalla forsetaembættisins. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að þeir sem sæti eiga í fjárlaganefnd hefðu orðið þess áskynja að rekstur þess embættis hefði verið til vansa mörg undanfarin ár. Mér hefði þótt fróðlegt að fá nánari fréttir af þessu.

Ég á ekki sæti í fjárlaganefnd. Ég hef ekki heyrt um þetta áður. Þetta kemur mér svolítið á óvart því að ég hefði reiknað með því að hægt væri að reka forsetaembættið frá ári til árs, nokkurn veginn innan ramma fjárlaga. Ég held að það væri að mörgu leyti gott fyrir alþingismenn að fá nánari upplýsingar um þetta.

Síðan langar mig einnig að spyrja: Hvað hefur í raun brugðist hjá utanríkisráðuneytinu varðandi það að verða við þessum hagræðingarkröfum? Hvers vegna hefur mönnum ekki tekist að ná fram þeirri hagræðingu sem hlýtur að vera eðlilegt að gera kröfu um, sérstaklega í ljósi hinna gríðarlega háu upphæða sem mér sýnist að eigi að láta renna til utanríkisráðuneytisins í þessum fjáraukalögum?