135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:04]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Loftslagsmálin eru vissulega til umfjöllunar í utanríkisráðuneytinu rétt eins og í umhverfisráðuneytinu, forsætisráðuneytinu og ríkisstjórninni allri, enda málið þess eðlis að það varðar okkur öll og ekki síst Alþingi.

Málið er í undirbúningi í umhverfisráðuneytinu og núna er stefnt að því að fara á fundinn í Kaupmannahöfn sem haldinn verður 2009. Það er sá fundur sem er mikilvægastur í þessu máli. Við leggjum aðaláherslu á, eins og fjölmörg önnur ríki á þessu stigi, að ná öllum ríkjunum að þessu borði þannig að Sameinuðu þjóðirnar geti gert um málið bindandi samkomulag, sem bindur ekki síst stærstu þjóðirnar. Það er aðalatriðið núna, að ná þessu fram. Þegar því hefur verið náð fram þá geta menn velt því fyrir sér hvernig eigi að útfæra samninga varðandi einstök ríki. Aðalatriðið núna er að ná bindandi samkomulagi sem allar þjóðir, ekki síst þær sem mest menga, verða aðilar að og á það er lögð áhersla fyrir fundinn í Kaupmannahöfn árið 2009.