136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[10:43]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur til þessa ekki viljað greina þingi og þjóð frá þeim skilmálum sem fylgja lánveitingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslands og borið fyrir sig trúnaði við stjórn sjóðsins. Þó hefur Seðlabankinn, eins og kunnugt er, upplýst um innihald 19. töluliðar skilmálanna á bloggsíðu sinni um hækkun stýrivaxta í 18%.

Í umræðu á Alþingi um aðkomu IMF að efnahagsvanda Íslands kom fram af hálfu okkar þingmanna Vinstri grænna að við teldum að skilmálar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gætu reynst vafasamir og varasamir enda mörg dæmi um slíkt þar sem sjóðurinn hefur komið að málum. Einkum voru hafðar uppi getgátur um að forsenda fyrirgreiðslu sjóðsins væri að gengið yrði frá samkomulagi við Breta og Hollendinga og hugsanlega fleiri ríki um uppgjör skulda íslenska bankakerfisins í þeim löndum. Öllum slíkum getgátum og vangaveltum var vísað á bug af hálfu ráðherra í ríkisstjórninni.

Nú ber svo við að á fundi þingmanna sameiginlegu EES-nefndarinnar í byrjun vikunnar kom fram hjá fulltrúum framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs Evrópusambandsins að sum aðildarríki hafi íhugað að tengja atkvæði í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins því að niðurstaða næðist í deilum Íslendinga og einstakra ESB-ríkja vegna tryggingaverndar innstæðna. Jafnframt kom fram að forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefði greint forsætisráðherra frá því að til greina kæmi að Íslendingar gætu fengið lán úr neyðarsjóði ESB en það væri þó einnig háð lausn á umræddum deilumálum. Í mínum huga er tenging lánafyrirgreiðslu og lausn deilumála við einstök ESB-ríki sem ef til vill geta endað fyrir dómstólum ekkert annað en fjárkúgun enda er þá nánast verið að selja Bretum og Hollendingum sjálfdæmi í deilunni. Slíkir afarkostir eru að mínu mati algerlega óaðgengilegir fyrir Ísland.

Nú vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra um stöðu málsins hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hvort hann sé sammála mér um að afarkostir þeir sem ég hef reifað séu óaðgengilegir og hvort og þá með hvaða hætti málið hafi verið rætt á fundi fjármálaráðherra á fundi EES-ríkjanna í Brussel núna í vikunni og hvers vegna íslenskir ráðamenn hafi haldið því fram að engin tenging sé hér á milli.