136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[10:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið eru í því samkomulagi sem ríkisstjórnin og Seðlabankinn náðu við sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins engin skilyrði um niðurstöður í einstökum deilumálum eins og þingmaður nefndi hér. Því er hins vegar þannig farið að þau ríki sem hv. þingmaður nefndi eiga sæti í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og það samkomulag sem við gerðum við sendinefndina á eftir að bera upp í stjórninni til þess að það verði afgreitt endanlega. Því má segja að þessi ríki hafi tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þar hvað deilur okkar við þau varðar og það gæti jafnvel haft áhrif á hvernig afstaða þeirra verður til málsins í stjórninni. Sá möguleiki sem hv. þingmaður nefndi er því fyrir hendi, að þetta hafi áhrif á niðurstöðu stjórnar sjóðsins. Hins vegar er þetta ekki byggt á því að um það sé fjallað í samkomulagi ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans við sendinefndina frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.