138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég á bágt með að trúa því að hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson hafi flutt þessa ræðu. Í hvaða álit er þingmaðurinn að vísa? Hefur hann ekki kynnt sér álit umboðsmanns Alþingis? Er hann að vísa í álit frá 29. desember 2008 sem varðar rannsóknarborun við Þeistareyki, ákvörðun Skipulagsstofnunar frá því 1. júní 2007? Það var álit um tímafresti, það var ekki efnislegt álit. Það var ekki álit um úrskurð umhverfisráðherra um sameiginlegt mat framkvæmda sem tekin var 31. júlí 2008. Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að öll þau ár sem ég hef verið í þessum sal hefur mér aldrei verið jafnþungt fyrir brjósti og nú. Þingmaðurinn hlýtur að sjá sóma sinn í því að draga ummæli sín til baka og leyfa sannleikanum að njóta sín hér úr ræðustól Alþingis.