138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

afskriftir skulda og samkeppnisstaða fyrirtækja.

[11:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það sem við ræðum í þessari stuttu utandagskrárumræðu er eitt stærsta hagsmunamál sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir. Við þekkjum það að um 60–70% af fyrirtækjum á Íslandi þurfa á skuldameðferð að halda. Við vitum að verið er að afskrifa gríðarlega stóra hluti og við erum að tala um tölur sem okkur flestum er kannski illa ljóst hvað þýða því að þær eru það stórar. Talað er um að íslensk fyrirtæki skuldi um 12.000–14.000 milljarða, en tiltölulega fáir aðilar skulda megnið af þessu, og að um verði að ræða miklar eignatilfærslur. Ætli það verði ekki einar mestu eignatilfærslur í Íslandssögunni.

Spurningin er: Hverjir munu sitja uppi með eignirnar og hvernig verður borgað fyrir þær? Hvernig verður rekstur þessara fyrirtækja og hverjir munu hagnast á uppsveiflu sem verður á næstu 2–4 árum nema stjórnvöldum takist gjörsamlega að klúðra málum?

Það sem veldur, held ég, flestum áhyggjum er að við höfum núna séð að fyrirtæki hafa farið í meðferð, en ég held að allir séu sammála um að ekki hafi verið gætt samræmis við slíka skuldameðferð. Stundum eru eigendur með, stundum ekki, stundum virðist vera um kennitöluflakk að ræða og mjög erfitt virðist vera að fá upplýsingar. Þær koma fyrst og fremst fram, og þær sem ég er að vitna í, í fjölmiðlum.

Öllum ætti að vera ljóst mikilvægi þess almennt að hafa gegnsæi í þjóðfélaginu, en ætli gegnsæi hafi nokkurn tíma verið jafnmikilvægt og nákvæmlega núna þegar um jafnstór mál er að ræða og raun ber vitni? Það þarf ekki aðeins að hafa gegnsæi, það verður að vera gegnumgangandi réttlæti þegar kemur að þessum málum. Það sama verður að gilda í sambærilegum málum. Á sama hátt verður að líta til samkeppnissjónarmiða. Svo ég segi það á mannamáli, við megum ekki skapa þær aðstæður að menn verði sérstaklega látnir gjalda fyrir að hafa sýnt ráðdeild og skynsemi. Með vilja nefni ég ekki einstök fyrirtæki en ég ætla þó að lesa einn tölvupóst sem ég fékk frá aðila sem vildi koma vissum sjónarmiðum áleiðis. Hann hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ég starfa við fyrirtæki í fasteignarekstri sem er skuldlaust og hefur ekki tekið þátt í vitleysunni. Við höfum orðið varir við að það er verið að bjóða leigjendum okkar vildarleigukjör í fasteignum sem eru óbeint í eigu ríkisins gegnum bankana. Einum leigjanda okkar var boðið, að eigin sögn, húsnæði í Smáralindinni, leigufrítt í eitt ár og prósenta af veltu það sem eftir er með engri grunnleigu. Þessi leigjandi er á förum. Eitthvað líkt skilst mér einnig að sé um að ræða víðar, eins og á Korputorgi.

Ef svo er málum háttað, að ríkið ráðist að þeim fyrirtækjum sem hafa sýnt fulla ábyrgð, bíð ég eftir afnámi gjaldeyrishafta, losa mig við mínar eigur og fer. Í þessu landi virðist ekki vera hægt að stunda heiðarleg viðskipti.“

Ef þetta er rétt er hér ekki einungis verið að refsa þessum aðila sem hefur sýnt ráðdeild og skynsemi, heldur mun þetta væntanlega líka koma niður á þeim aðilum sem keppa við það fyrirtæki sem fer núna í leigulaust húsnæði óbeint í eigu ríkisins. Þetta er eitt af fjölmörgum dæmum. Fólk vill hins vegar fá að vita af hverju á að afskrifa skuldir hjá einhverjum ef það er gert. Svo sannarlega hafa ráðamenn gefið fyrirtækjunum skýr skilaboð, þá sérstaklega hæstv. ráðherra sem ég ræði nú við og hæstv. fjármálaráðherra, og heimilunum að skuldir verði ekki afskrifaðar. Ég spyr því hæstv. ráðherra:

1. Hyggst ráðherra tjá sig á ný um afskriftir einstakra skuldara hjá íslenskum lánastofnunum?

2. Telur ráðherra eðlilegt að skuldir séu afskrifaðar og þá að hvaða forsendum uppfylltum?

3. Telur efnahags- og viðskiptaráðherra ferli við afskriftir skulda fyrirtækja vera nægilega gegnsætt og þau viðmið sem stuðst er við varðandi afkomu núverandi eigenda vera nægilega gegnsæ?

4. Nú hefur verið afskrifað að fara í aðgerðir til að tryggja áframhaldandi rekstur hjá fyrirtækjunum. Telur ráðherra að samræmis hafi verið gætt við þær aðgerðir?

5. Telur efnahags- og viðskiptaráðherra að tekið (Forseti hringir.) sé tillit til samkeppnissjónarmiða þegar afskriftir og önnur fyrirgreiðsla er ákveðin, þ.e. að tekið sé tillit til þeirra samkeppnisaðila sem ekki hafa farið jafngeyst og þau fyrirtæki sem njóta (Forseti hringir.) slíkrar fyrirgreiðslu?