138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

afskriftir skulda og samkeppnisstaða fyrirtækja.

[11:10]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Við ræðum mikilvæg mál þar sem gríðarlegir hagsmunir eru í húfi, bæði fyrir lánardrottna og lántaka og raunar ríkið og efnahagslífið allt. Það væri hægt að tala um þetta í mun lengra máli en hér er tími fyrir. (Gripið fram í.) Rétt er að hafa í huga þegar spurt er hvort eðlilegt sé að skuldir séu afskrifaðar að það er vitaskuld algjörlega óhjákvæmilegt. Raunar verða á næstu mánuðum, og hafa að hluta til þegar farið fram, líklega mestu afskriftir í hlutfalli við stærð hagkerfisins sem um getur í sögu vestrænna hagkerfa. Líklega tapast 4–5 landsframleiðslur eða jafnvirði þeirra inni í bankakerfinu. Auðvitað eru þetta ekki allt kröfur á Íslendinga, en þetta eru kröfur sem íslenskir bankar höfðu stofnað til og geta nú ekki greitt af vegna þess að þeir sem þeir höfðu lánað til geta ekki heldur staðið í skilum. Það er ekki bara eðlilegt, það er einfaldlega óhjákvæmilegt að þarna verði gríðarlegar afskriftir. Megnið af kostnaðinum við þessar afskriftir lendir á erlendum kröfuhöfum. Það er rétt að hafa það í huga þótt vitaskuld séu líka þungar búsifjar hjá ýmsum íslenskum aðilum.

Forsendurnar fyrir afskrift eru einfaldlega alla jafna þær að lántakinn geti ekki greitt þannig að það hlýtur að vera fyrsta og aðalforsendan, en síðan verður að huga að verklagsreglum um nánari útfærslu á afskriftunum, gagnsæi og öðru slíku. Því er til að svara að allir bankarnir hafa sett sér verklagsreglur um þetta. Þær hljóma ágætlega og eru að mínu mati skynsamlegar en það er ekki nóg að setja sér reglur, það verður að liggja fyrir að farið sé eftir þeim. Vegna þess hefur m.a. verið ákveðið með lögum að setja á stofn sérstaka nefnd sem heyrir undir mig að skipa í sem á að fylgjast með ýmsu, þar á meðal því hvernig staðið er að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja af hálfu fjármálafyrirtækja.

Sumar af þeim spurningum sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson beinir til mín eru þess eðlis að það er eðlilegt að þessi nefnd fari yfir þær og leiti að svörum. Þess vegna tel ég ekki rétt að ég sem ráðherra sem skipar nefndina gefi henni einhverja línu með því að lýsa því yfir hér og nú hver ég tel að eigi að verða niðurstaðan úr slíkri rannsókn.

Ég get þó sagt ýmislegt um þetta, í fyrsta lagi það að vitaskuld þarf að taka tillit til samkeppnissjónarmiða og raunar hef ég á öðrum vettvangi beinlínis beitt mér fyrir því. Það má huga að því á marga vegu. Eitt er að skoða hvort þær fyrirtækjasamsteypur, sem hafa verið mjög áberandi í íslensku efnahagslífi á undanförnum árum, eigi að endurreisa í óbreyttri mynd með öllum þeim samkeppnislegu vandamálum sem þeim fylgdu, mikilli markaðshlutdeild og tengingum á milli fyrirtækja sem flæktust fyrir í samkeppnismálum. Mitt svar er alla jafna að þetta eigi ekki að gera nema í algjörri neyð, að enginn annar raunhæfur kostur sé í stöðinni.

En það er bara einn angi af þessum samkeppnismálum. Annar er sá sem hv. þingmaður minntist á sem er hvernig eigi að gæta sanngirni milli samkeppnisfyrirtækja þegar eitt fer í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og annað ekki. Um það er auðvitað hægt að tala í löngu máli, en aðalreglan hlýtur að vera sú að þegar fjármálafyrirtæki vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu hjá viðskiptavinum sínum afskrifa þau ekki meira en hægt er að komast af með. Með öðrum orðum skilja þau eftir lífvænlegt fyrirtæki sem getur staðið í skilum með skuldir sínar en að gefa ekki nýjum eigendum, eða jafnvel gömlum eigendum, neitt með því að afskrifa meira en þörf krefur. Ef þannig er staðið að málum ættu þessar afskriftir ekki að valda neinum sérstökum vandræðum fyrir samkeppnisaðila, en ég skal alveg viðurkenna að það er mjög erfitt að hrinda þessu í framkvæmd svo öllum líki, sennilega ómögulegt.