139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:07]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé nú ekki mikill ágreiningur í raun og veru milli mín og hv. þingmanns. Staðan er nefnilega sú að ef örvunaraðgerðir einar og sér mundu leysa vandann, ef við gætum bara með því að lækka skattana skapað þau störf sem hér þarf að gera, værum við í fínum málum. En staðan er því miður ekki þannig. Þess vegna þurfum við að grípa til róttækari aðgerða, eins og þeirra að auka nýtingarhlutfallið í fiskveiðunum. Við þurfum að gera það. Við getum vel gert það án þess að taka lán hjá framtíðinni, eins og hv. þingmaður orðaði það. Jú, það má svo sem halda því fram að stofnarnir vaxi hægar, en þeir verða samt sem áður í vexti.

Við erum líka að tala fyrir fjárfestingu í orkufrekum verkefnum. Það er á engan hátt lán hjá framtíðinni.

Hann nefndi hér séreignarsparnaðinn. Þetta er í sjálfu sér bara kerfisbreyting. Af því að hér kom fram í umræðunni að þetta væri einskiptisaðgerð vil ég láta þess getið að hún mun skila u.þ.b. 11 milljörðum kr. á ári miðað við núverandi forsendur (Forseti hringir.) um alla framtíð, fyrir utan þennan (Forseti hringir.) stóra stabba sem kemur í upphafi.