139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:43]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé fyrir mér hvað varðar innspýtingu í atvinnulífið og að hjól atvinnulífsins fari að snúast hraðar og þar með auka hagvöxt og skapa fleiri störf — ég sé fyrir mér að það gerist núna í nóvember og desember. Ég hika ekki við að halda því fram, og bera þá von í brjósti um leið að sjálfsögðu, að í mörgum þáttum sem hefur verið ágreiningur um og jafnvel rifist um en er talað um hér og sumir eru sammála og aðrir andvígir muni skapast skilyrði í nóvember og desember til að klára þau mál. Ég nefndi það sem ég tel, eftir að hafa skoðað það, vera eina atriðið sem eftir er varðandi uppbygginguna á Suðurnesjum, þ.e. samning milli þess sem ætlar að selja orku og þeirra sem ætla að kaupa hana, og að það klárist í nóvember/desember. Ég held að það strandi fyrst og fremst á því máli.

Síðan vil ég taka undir það sem hv. þingmaður sagði um lítil og meðalstór fyrirtæki. Auðvitað eru þau stór drifkraftur í atvinnulíf okkar. Ég nefndi töluna áðan, 5–6 þúsund fyrirtæki, stór og smá, og ef þau gætu hvert og eitt ráðið í eitt starf væri helmingurinn af atvinnuleysinu farið, eða segjum bara annað hvert fyrirtæki, þá væri fjórði parturinn farinn.

Virðulegi forseti. Maður á kannski ekki að taka dæmi sem tengjast manni eða maður hefur orðið áskynja um nýlega, og eins og kannski má sjá borða ég stundum fullmikið en ég fór á Hamborgarafabrikkuna ekki alls fyrir löngu og mér þótti það ákaflega merkilegt. Þar hitti ég þá ágætu menn sem drifu þá starfsemi áfram og voru að fá markaðsverðlaun í gær eða fyrradag. Við þann veitingastað sem þar var opnaður hafa orðið til hvorki meira né minna en 50 störf. (Gripið fram í: Og transfitur.) Það eru álíka mörg störf og munu skapast við kerverksmiðjuna fyrir austan. Það má taka ýmisleg fleiri dæmi en það eru vaxtarbroddar út um allt.

Grundvallaratriðið er þetta: Við þurfum (Forseti hringir.) á Alþingi að skapa skilyrði fyrir öflugt atvinnulíf og að (Forseti hringir.) atvinnulífið fari í gang. Við munum ekki skapa störfin. Við munum ekki (Forseti hringir.) vinna okkur út úr þessari kreppu með því að hækka skatta (Forseti hringir.) eða skera niður eða ráða í fleiri störf hjá ríkinu. Það mun ekki ganga.