139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[13:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa upplýst mig um tilefni að þessu frumvarpi. Af ræðu hennar og samhengi mátti ætla að það væri annað.

Ég kannast ekki við það að í rannsóknarskýrslunni komi það fram að ráðherrar í þáverandi ríkisstjórn hafi vísvitandi sagt þjóðinni ósatt. Hafi þeir komið fram með einhverjar upplýsingar á almannafæri sem hafi orkað tvímælis hefði það verið skylda þingsins að taka það hér upp á þinginu. Það var aldrei gert. Ég kannast ekki við það.

Ég kannast hins vegar við það að í rannsóknarskýrslunni er frá því greint að ráðherrum hefði út frá málsatvikum og gögnum sem fyrir lágu átt að vera kunnugt um tiltekna þætti sem hefði gert þá betur meðvitaða um hvað var í vændum, ég kannast við það í skýrslunni, ekki hitt.

Mér finnst ekki hægt af hv. þingmanni að tala með þessum hætti, jafnvel þó hún hafi setið í hinni góðu nefnd þingsins sem rannsakaði þetta, eins og það hafi bara verið sjálfsagður hlutur sem liggi fyrir að ráðherrar hafi sagt ósatt. Ég bara kannast ekki við það.

Varðandi mál Ninn-Hansens þá skoðaði ég það líka ákaflega vel. Það voru margar sakargiftir sem á hann voru bornar og fleiri ráðherra. Þegar búið var að skoða það mál og þegar það kom til dóms var ein sem eftir stóð og hún var sú að sá ráðherra danskur hafði farið gegn því sem lögfræðingar ráðuneytis hans í vitna viðurvist sögðu honum að væri lögbrot. Á því var hann dæmdur. Nákvæmlega sú staða leiddi til afstöðu minnar hér í margfrægri atkvæðagreiðslu um landsdóm. Ég taldi að það lægi alveg ljóst fyrir að engin skýr lögbrot hefðu verið framin. Það er kannski óskylt þessu máli. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa upplýst mig um það sem ég var að spyrja hana eftir.