140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

gjaldeyrishöft.

[15:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú fá hv. þingmenn tækifæri til að ræða bæði þessa efnahagsstefnu og þá ríkisfjármálastefnu sem þegar er fram komin og liggur hér fyrir í riti með mynd af fallegu fjalli á forsíðunni. Þetta tvennt er hrygglengjan í því sem við erum að leggja niður fyrir okkur til næstu ára litið, þ.e. ábyrg stefna í ríkisfjármálum og að komast sem fyrst út úr hallarekstri sem er mikilvæg forsenda annarra hluta, stöðugleika í efnahagslífinu að öðru leyti, og síðan markmið um vöxt, sjálfbæran hagvöxt og eðlilega þróun hér í hagkerfinu til komandi ára. Ég hélt að það væri ekkert leyndarmál, menn hafa rætt opinberlega um það og Seðlabankinn skrifað um það í skýrslum sínum, að einhvers konar þjóðhagsvarúðarráðstafanir þyrftu þá að koma til sögunnar, verðbólgumarkmið plús eða hvað menn nú kalla það. (Gripið fram í.) Nei, ég kýs ekki að kalla það höft heldur annars konar öryggistæki, t.d. möguleika á að takmarka skjótan vöxt banka og áhættusækni sem gæti verið (Forseti hringir.) varhugaverð í ljósi gjaldeyrisstöðugleika og annars í þeim dúr. Þetta er kannski spurning um nafngiftir og hvaða túlkun menn leggja í mismunandi texta.