141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ræðu hans. Hún skilur mig reyndar eftir í dálítilli óvissu.

Þegar hv. þingmenn Hreyfingarinnar komu inn á þing batt ég hreint út sagt, herra forseti, ákveðnar vonir við að þar kæmi inn ný hugsun og nýtt siðferði vegna þess að þau höfðu gagnrýnt svo mikið einmitt flokksræðið og allt sem þau telja að sé að í störfum þingsins. Strax við fyrstu nefndaskipan á Alþingi brugðust þau vonum mínum því að þau létu valdið ráða til að fá fleiri menn í nefndir með aðstoð ríkisstjórnarinnar. Síðan hafa þau verið björgunarsveit fyrir mjög sundurþykka ríkisstjórn aftur og aftur. Eitt af því var stuðningur við stjórnarráðsmálið sem fólst í því að þau seldu stuðninginn gegn því að inn í frumvarpið kæmi ákvæði um hljóðritun á ríkisstjórnarfundum.

Nú er spurning hvað gerist þegar verið er að taka út hljóðritunina. Hvernig geta þau endurheimt vöruna sem þau seldu? (Gripið fram í.) Hvernig geta þau endurheimt þann stuðning og þá aðstoð við ríkisstjórnina sem þau voru búin veita?

Nú kemur hv. þingmaður og segir að þetta sé jú til bóta svona yfir hið heila o.s.frv. Mér finnst það ekki trúverðugt. Hafi menn viljað hafa hljóðritanir, sem ég er sjálfur ekkert voðalega hlynntur — ég er ekki að tala um mína skoðun, ég er að tala um skoðun hv. þingmanns — hvernig stendur þá á því að þau gefa eftir í því máli? Er sannfæringin að þessu leyti til sölu, ef það má orða það þannig? Nú ætla ég ekki að vera neitt beinskeyttur en hv. þingmaður hefur nefnilega verið mjög beinskeyttur gagnvart samþingmönnum sínum á hv. Alþingi (Forseti hringir.) og því spyr ég hann aftur.