145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

málefni fatlaðra.

[11:12]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að óska eftir umræðu um málefni fatlaðs fólks. Ég held að sveitarstjórnarmenn í öllum kjördæmum hafi notað tækifærið til að ræða þennan stóra og mikilvæga málaflokk í kjördæmavikunni.

Svo ég renni yfir þær spurningar sem hv. þingmaður beindi til mín þá voru þær eftirfarandi: Hefur ríkisvaldið lagt auknar kröfur á sveitarfélögin eftir að þau tóku við málaflokknum hvað varðar breytingar á lögum um rétt til þjónustu? Ef svo er, ef hvaða kröfur eru það og hver er kostnaðurinn vegna þeirra? Hver er reynslan af flutningum? Hver er staða málsins? Eru viðræður í gangi? Hver er lærdómurinn af þessum tilflutningi? Teljum við að undirbúningur hafi verið fullnægjandi?

Ég er ekki enn búin að fá skýrslu um endurmat á yfirfærslunni en er komin með forupplýsingar um efni skýrslunnar. Hún virðist leiða í ljós að fagleg og stjórnsýsluleg markmið yfirfærslunnar hafi í meginatriðum gengið eftir. Sveitarfélögin hafa sinnt þjónustu við fatlað fólk af ábyrgð og fagmennsku. En þegar við horfum á fjárhagsstöðu málaflokksins, þ.e. ef við horfum á heildaryfirlitið yfir tímabilið virðast sveitarfélög í meginatriðum hafa fengið fjárhagsramma til að sinna verkefninu.

Það segir hins vegar ekki alla söguna um hina eiginlegu fjárhagsstöðu þegar litið er til rekstrarafkomu ársins 2014. Gerðar voru ákveðnar breytingar á úthlutum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eftir að fyrir lágu niðurstöður á svokölluðu SIS-mati varðandi þjónustuþörf einstaklinga. Þegar við lítum yfir heildina fyrir árið 2014 sést að þrátt fyrir að tekjur nýrra tekjustofna hafi aukist verulega hjá sveitarfélögunum hafa útgjöldin aukist enn meira. Þegar horft er á skiptinguna í prósentum, ekki í krónum, virðist vera að aukning útgjalda sé mest vegna frekari liðveislu en minnst vegna dagþjónustu og miðlægra verkefna. Síðan eru það stærri liðir eins og búseta sem hækkað hafa í krónum talið ekki jafn mikið í prósentum.

Ekki er enn komin niðurstaða um tillögu að endanlegri útsvarsprósentu en hún þarf að liggja fyrir á næstu vikum í tengslum við fjárlagagerðina. Vinnan hefur beinst að því að einangra þætti sem skoða þarf í beinum viðræðum milli ríkis og sveitarfélaga. Það sem þarf sérstaklega að huga að og er alveg ljóst að ekki hefur verið tekið nægt tillit til eru möguleg kostnaðaráhrif ýmissa laga, reglugerða og framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks sem samþykkt var eftir að ákvörðun var tekin um að færa málaflokkinn til sveitarfélaganna. Það liggur líka fyrir að þjónustuþegum hefur fjölgað þannig að eftir því sem þjónustan er nær fólki virðist það vera upplýstara um hvaða þjónustu það á rétt á, þannig að ýmsir sem hingað til hafa ekki fengið þjónustu hjá sveitarfélögunum fá hana núna. Síðan lá jafnframt fyrir að ekki er komin niðurstaða sem snýr að atvinnumálum fatlaðs fólks en hins vegar er búið að undirrita viljayfirlýsingu sem snýr að því hvernig við ætlum að sinna því verkefni í samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga og þar af leiðandi líka kostnaði sem tengist því.

Síðan eru líka önnur verkefni eins og þjónusta við börn með alvarlegar raskanir. Við erum með á hverjum tíma væntanlega með átta til tólf börn sem eru með mjög alvarlegar raskanir, mjög mikla fötlun, sem sinna þarf sérstaklega. Við leggjum áherslu að þeim sé sinnt sem næst sínum heimilum, en ekki var gert ráð fyrir þeim sérstaklega þegar málaflokkurinn fór yfir til sveitarfélaganna. Þjónustan við eitt barn getur verið tugir milljóna. Tökum sem dæmi eitt þjónustusvæði, Vestfirði. Segjum að hallinn þar sé 100 millj. kr. núna. Ef eitt mikið fatlað barn mundi bætast við gæti kostnaðurinn nánast tvöfaldast, aðeins vegna þjónustu við eitt barn sem þarf á mikilli umönnun að halda.

Síðan höfum við og fyrri stjórnvöld áform um að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna varðandi réttindi fatlaðs fólks og sá kostnaður sem gæti komið til hvað það varðar.

Reynslan af flutningnum er að mínu mati sú að sveitarfélögin eru vel burðug til að sinna þessu verkefni. Þau hafa gert það vel, af fagmennsku og ábyrgð. Ég set hins vegar spurningar við ákvörðun um þjónustusvæðið, því að við sjáum að sum lítil sveitarfélög eins og Hornafjörður hafa sinnt verkefninu mjög vel og innan fjárhagsramma. Það virðist því ekki endilega (Forseti hringir.) vera stærðin á þjónustusvæðinu sem skiptir máli heldur líka samsetningin á þeim verkefnum sem verið er að sinna. Það eru viðræður í gangi og lærdómur minn af þessu er (Forseti hringir.) að það var mjög mikilvægt að setja inn ákvæði um endurmat og gera sér grein fyrir því (Forseti hringir.) að þegar við færum þjónustuna nær þjónustuþegunum koma fram auknar kröfur um þjónustu.