145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

málefni fatlaðra.

[11:34]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er mikilvæg umræða. Fatlað fólk er fyrst og fremst fólk, fólk sem er íbúar í sveitarfélögum, íbúar sem þurfa ýmiss konar þjónustu líkt og allir aðrir íbúar í sveitarfélögum. Mér finnst mjög mikilvægt að þegar við ræðum málefni fatlaðs fólks ræðum við það í því samhengi en ekki inni í einhverju litlu boxi sem merkt er „Málefni fatlaðs fólks“. Slík nálgun væri enda í anda samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem unnið er að fullgildingu á, en því miður hefur mér oft fundist mörgum ganga illa í umræðunni að tileinka sér það inntak og þá sýn sem þar er sett fram á fatlað fólk og stöðu þess í samfélaginu.

Ég er hins vegar alveg sammála því að auðvitað þarf að skoða skiptingu á kostnaði milli ríkis og sveitarfélaga. Það er alveg rétt að þjónustan við þennan tiltekna íbúahóp sveitarfélaganna hefur verið að aukast á undanförnum árum, sem betur fer.

Í skýrslu sem ber heitið Fatlað fólk og öryrkjar sem íbúar sveitarfélaganna og kom út 2013, kemur hins vegar fram að einungis 20% fatlaðs fólks njóta þjónustu frá sveitarfélögum, en 78% segjast ekki fá þjónustu, þar af eru 40% sem telja sig þurfa á þjónustunni að halda. Við erum því ekki komin á neinn endapunkt í þessu máli.