145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[13:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri nú ekki tilkall til að vera í hópi þeirra tveggja hv. þingmanna Ingibjargar Þórðardóttur og Brynjars Níelssonar sem lýsa sér sem kúltíveruðum hófdrykkjumönnum, en ég er hins vegar aspírant í þá stöðu. Mér finnst hins vegar að mál hv. þingmanns sé vel til þess fallið að sýna þeim fram á, sem vilja eiga kost á úrvali góðra vína, að það sé meira en hugsanlegt að samþykkt þessa frumvarps dragi mjög úr því. Ég er sammála því að þeir sem vilja eiga að njóta þeirra lífsgæða sem felast í kúltíveraðri hófdrykkju og segi það alveg eins og er að gjarnan vildi ég fá að kynnast Þorláki þeim sem nefndur var hér fyrr til sögunnar.

Mér finnst að út frá þessu sé vel hægt að halda því fram að þetta frumvarp dragi úr möguleikum þeirra sem vilja eiga kost á því að njóta sérfræðikunnáttu og þjónustu vel þjálfaðra starfsmanna; að slíku fólki, eins og hv. þingmaður sagði, verði bara öllu beint í einhvern ódýran rudda sem enginn veit hvaðan kemur né til hvers leiðir.