145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst segja að hv. þingmaður ber þessa hartnær hálfu öld vel, (GÞÞ: Þakka þér fyrir.) úr því að hann var að upplýsa um það í ræðustól. Ég fór yfir þetta í ræðu minni, sem er fyrsta ræðan sem ég held um þetta mál á öllum þingtíma mínum þótt það hafi nokkrum sinnum verið á dagskrá. Ég er byrjandi í umræðu um þessi mál. Mér hafa þótt margar af ræðunum sem hafa verið fluttar hér, bæði af fylgismönnum og andstæðingum þessa frumvarps, mjög málefnalegar og snerta á grundvallaratriðum. Ég held að þetta gefi okkur tækifæri til að takast á um hvaða aðferðum við viljum beita þegar kemur að lýðheilsumálum og takast á um hversu þungt viðskipta- eða verslunarfrelsið eigi að vera þegar við tökum stórar ákvarðanir.

Ég held að Íslendingar séu nokkuð sáttir við núverandi fyrirkomulag. Ég hef búið í hartnær 40 ár í sama landi og (Gripið fram í.) hv. þingmaður (Forseti hringir.) og hef ekki orðið vör við annað en að Íslendingar sé nokkuð sáttir við (Forseti hringir.) það fyrirkomulag sem er við lýði núna.