149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[16:19]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri til að ræða efnisatriði skýrslu um þolmörk ferðamennsku sem ég lagði fram á Alþingi sl. vor. Umræða um skýrsluna náðist ekki þá en ég fagna því að hún eigi sér stað nú enda um mikilvægt málefni að ræða sem varðar sjálfbæra þróun einnar stærstu atvinnugreinar landsins. Skýrslan var unnin á grundvelli beiðni frá þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Hún var unnin í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samvinnu við dr. Gunnþóru Ólafsdóttur.

Vert er að geta þess að skýrslan er einnig í góðu samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að á kjörtímabilinu verði lögð áhersla á að greina þolmörk ferðamennsku frá sjónarhóli náttúrunnar, samfélagsins og efnahagslífsins, sem er það sem ég vék að í seinni ræðu minni rétt áðan.

Vöxtur ferðaþjónustu hefur gegnt lykilhlutverki í viðsnúningi efnahagslífsins undanfarinn áratug. Á þeim tíma hefur hún skapað langtum meiri gjaldeyristekjur en nokkur önnur atvinnugrein og einnig fleiri störf en aðrar greinar. En ferðaþjónustan hefur margvísleg önnur áhrif en efnahagsleg, bæði jákvæð og neikvæð. Náttúru landsins, sem er meginaðdráttarafl Íslands sem áfangastaðar, má ekki stefna í voða vegna of mikils álags eða skorts á viðeigandi aðstöðu til að taka á móti ferðafólki. Samfélagið verður jafnframt fyrir áhrifum af hinum mikla vexti greinarinnar og hefur hann líka áhrif á upplifun sjálfs ferðamannsins.

Ljóst er að eigi áframhaldandi þróun greinarinnar að vera sjálfbær er mikilvægt að mótað sé skilvirkt kerfi stýringar á ferðamannastöðum sem byggir á þolmarkarannsóknum. Þolmörk ferðamennsku eru oftast skilgreind sem sá fjöldi gesta sem svæði getur tekið á móti áður en neikvæðra áhrifa fer að gæta, hvort heldur er á náttúrulegt umhverfi, upplifun ferðamanna eða viðhorf heimamanna. Þolmarkarannsóknir á sviði ferðamála hófust hér á landi í kringum árið 2000, en alls hefur verið ráðist í 58 rannsóknir á 32 stöðum. Margar eru mjög vandaðar en almennt séð hefur ekki verið mikil samfella í þeim eða heildstæðar rannsóknaráætlanir búið að baki þeim.

Skýrslan talar sínu máli um niðurstöður allra þessara rannsókna og ætla ég ekki að rekja þær ítarlega hér. Það sem mestu skiptir er að það eru skýr merki um að þolmörkum hafi víða verið náð nú þegar, ýmist hvað varðar náttúru, samfélag eða upplifun ferðamanna. Staðan er að sjálfsögðu mjög misjöfn eftir svæðum og árstíma en sá tími er runninn upp að við þurfum að nýta rannsóknir af þessu tagi betur, nýta þær til að taka ákvarðanir í mun meira mæli en við höfum gert fram til þessa.

Hér á landi hefur þolmarkahugtakið hingað til verið notað til að afla upplýsinga um stöðuna, en ekki sem stjórntæki fyrir áfangastaði. Því verðum við að breyta.

Til að þolmarkahugtakið virki sem stjórntæki þarf fyrst að marka stefnu fyrir stað eða svæði með tilliti til ferðamennsku. Setja þarf viðmið um ásættanlegar breytingar á staðnum og vakta síðan alla viðeigandi þolmarkaþætti til að meta hvort staðurinn sé yfir eða undir þolmörkum. Þannig skapast ákveðin hringrás í stjórnunarferlinu sem auðveldar ákvarðanir um hvort grípa þurfi til stýringar, hvort sem það er í formi aðgangsstýringar, gjaldtöku, uppbyggingar innviða, landvörslu, fræðslu, upplýsingagjafar eða skipulags á borð við einstefnu o.s.frv. Fyrirmyndir að slíkum verkferlum eru til en fara þarf yfir þær og laga að íslenskum aðstæðum. Ég tel að orðið sé tímabært fyrir okkur að velja hentugan ferðamannastað til að keyra slíkt verkefni á til reynslu, útfæra verkferla sem henta á þeim stað til að hefja markvissa stýringu, m.a. á grundvelli þolmarka og vöktunar á þeim. Ég mun beita mér fyrir því að við hefjum slíkt verkefni sem fyrst.

Það er einmitt ein af meginályktunum skýrslunnar, að skilgreina þurfi verkferil, byggðan á viðurkenndri aðferðafræði, til að geta nýtt þolmarkahugtakið sem leið til stýringar. En til þess að slíkur ferill geti nýst sem best þurfa nokkrir þættir að koma til. Í fyrsta lagi þarf aukna hagnýtingu rannsókna við stjórnun áfangastaða. Mynda þarf samfellu vöktunarrannsókna til að ná betri yfirsýn og til að geta tekið betri og skjótari ákvarðanir. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum aukið stuðning við rannsóknir og greiningar á sviði ferðamála. Lengi hefur vantað öflugri brú á milli rannsókna og gagnaöflunar annars vegar og ákvarðana á vettvangi hins vegar. Til að bæta úr þessu hef ég áður varpað fram hugmyndinni um „litlu Hafró“ með vísun í fyrirkomulag í sjávarútvegi sem reynst hefur vel. Með nýjum lögum um Ferðamálastofu, sem samþykkt voru nú í vor og taka gildi um áramótin, fær sú stofnun skýrara hlutverk varðandi rannsóknir í ferðamálum. Ég bind miklar vonir við þá breytingu og horfi til þess að hægt verði að gera nauðsynlegar umbætur á rannsóknarumhverfi ferðamála í náinni framtíð.

Í öðru lagi þarf að móta viðmið um ásættanlegar breytingar og tryggja að þau rati inn í áætlanir, svo sem stjórnunar- og verndaráætlanir á friðlýstum svæðum. Hagnýting þolmarkarannsókna byggist á því að viðmið séu sett þannig að viðvörunarbjöllur hringi þegar einhver þáttur nálgast þolmörk. Í þessu sambandi er vert að nefna viðamikið og mikilvægt verkefni á vegum Stjórnstöðvar ferðamála. Hér er um að ræða álagsmat umhverfis, innviða og samfélags gagnvart fjölda ferðamanna. Þetta er metnaðarfullt og í raun einstakt verkefni því að ekki er vitað til þess að slíkt mat hafi áður verið unnið á landsvísu í nokkru landi, eingöngu fyrir ákveðin svæði í ýmsum löndum. Fyrri áfanga er nýlokið og ég hvet þingmenn til að kynna sér það, en hann gekk út á að skilgreina á sjöunda tug, þ.e. 66, álagsmælikvarða eða vísa.

Í stuttu máli má þá segja að við séum búin að finna út mælikvarðann hraða og nú eigum við eftir að finna út úr því hver er æskilegur hámarkshraði. Eru það 50 km, 70 eða 90 í einfaldri mynd? Nú tekur við þessi seinni áfangi sem snýst um gildissetningu vísanna og framkvæmd álagsmats byggt á þeim. Álagsmatið mun síðan undirbyggja þessa stefnumótun í ferðaþjónustu en vinna við mótun nýrrar ferðamálastefnu sem tekur gildi árið 2020 er einnig hafin.

Í þriðja lagi þarf stefnu og stýringu fyrir hvern áfangastað. Ákveða þarf fyrir hvern landshluta hvaða svæði eiga að taka á móti fjölda ferðamanna og hvaða svæðum verður haldið utan alfaraleiða, og eigendur og ábyrgðaraðilar hvers svæðis þurfa að móta sér stefnu um viðkomandi stað.

Ný landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru vegna álags af völdum ferðamennsku er stórt skref í stefnumótun fyrir staði í eigu og umsjón opinberra aðila. Í landsáætluninni koma einnig fram stefnumótandi áherslur í sambandi við uppbyggingu innviða sem varða stýringu, m.a. um flokkun lands með tilliti til ferðamennsku og setningu viðmiða um þolmörk staða.

Nýlegar breytingar á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða í ljósi tilkomu landsáætlunar gera það enn fremur að verkum að hann hefur aukið svigrúm til uppbyggingar á stöðum í umsjón sveitarfélaga og einkaaðila.

Vinnu við áfangastaðaáætlanir landshluta er nú að ljúka en þær eru afar mikilvægar fyrir þróun ferðamennsku á hverju landsvæði fyrir sig. Það skiptir máli. Þær taka á skipulagi, þróun og markaðssetningu hvers svæðis og stýringu á umferð ferðamanna. Þær þarf nú að innleiða og samræma við aðrar lögbundnar áætlanir, m.a. landsáætlun og skipulagsáætlanir sveitarfélaga.

Þá er mikilvægt að halda áfram vinnu við endurskoðun á ákvæðum um almannarétt, sem fram fer á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, og mótun reglna um sérleyfissamninga vegna hagnýtingar og atvinnustarfsemi á landi í eigu ríkisins sem unnið er að á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Það sýnir líka að öll stærstu verkefni sem snúa að ferðaþjónustu eiga oft heima undir öðrum ráðuneytum.

Í fjórða lagi þarf meiri samhæfingu stofnana og aukið samspil áætlana. Þétt samstarf ráðuneyta er sérstaklega mikilvægt, sem og samhæfing á milli ríkis og sveitarfélaga. Á þessu hefur Stjórnstöð ferðamála tekið og skipt ótrúlega miklu máli. Áform um nýja Þjóðgarðastofnun fela líka í sér tækifæri til að auka samræmi og samhæfingu sé rétt þar á málum haldið.

Virðulegur forseti. Ég bind vonir við að efni skýrslunnar og umræðurnar hér í dag séu liður í því að við leggjum grunn að öflugu skipulagi við stjórnun áfangastaða sem byggist á vísindalegri þekkingu. Ísland hefur alla burði til að skipa sér í fremstu röð á þessu sviði líkt og við höfum gert á sviði stjórnunar í sjávarútvegi en það gerist ekki af sjálfu sér. Það er ásetningur minn að fylgja eftir þeim tillögum og ábendingum sem fram koma í skýrslunni um mikilvægi þess að leggja grunn að virkri stýringu í ferðamennsku og ég vonast til að eiga gott samstarf við þingmenn um þá viðleitni, hér eftir sem hingað til.