150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

vegalög.

60. mál
[13:23]
Horfa

Flm. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem tóku til máls í umræðum um þjóðferjumálið svokallaða kærlega fyrir þeirra innlegg. Ég tel að þar hafi margt dýrmætt komið fram. Þeir töluðu m.a. um að þetta væri byggðamál og ég tek heils hugar undir það. Sérstaklega með tilliti til nýlegra frétta frá Grímsey úti fyrir Eyjafirði er sannarlega þörf á að beita öllum ráðum til að styrkja byggðir á slíkum eyjum, halda þeim við svo þær leggist ekki í eyði. Þetta er eitt af þeim ráðum, að skylda ríkið til að sjá um þessar ferjuleiðir.

Ég bendi á 22. gr. núverandi vegalaga þar sem segir, með leyfi forseta:

„Í samgönguáætlun er heimilt að ákveða fjárveitingu vegna kostnaðar við ferjur til flutnings á fólki og bifreiðum …“

Þar er heimilt að ákveða þetta, það er ekki um neina skyldu að ræða eins og kom ítarlega fram í áliti umboðsmanns Alþingis. Þetta er agnúi á lögum sem þarf að leiðrétta og í frumvarpinu sem við ræðum nú er orðalaginu breytt úr því að vera heimilt einfaldlega í það að í samgönguáætlun skuli ákveða fjárveitingu vegna kostnaðar við þessar ferjusiglingar, sú skylda sé lögð á ríkið að sjá um þessar siglingar, að það sé ekki bara heimilt heldur að það sé skylt, til eyja sem eru byggðar. Þær eru fjórar. Það á að vera skylda, alveg eins og ríkinu er skylt að halda vegasamgöngum til afskekktustu byggða. Það er gerð þjónustuáætlun um hversu oft eigi að moka, hversu oft eigi að ryðja snjó o.s.frv., hvort það sé þrisvar í viku, tvisvar eða eftir atvikum, allt eftir því þjónustustigi sem skilgreint er fyrir viðkomandi svæði. Það fer eftir íbúafjölda, atvinnustigi og þörfinni sem þarf auðvitað að skilgreina í hverju tilviki. Það er mikilvægt að gera það fyrir Grímsey, Flatey á Breiðafirði, Hrísey og auðvitað líka fjölmennustu byggðu eyju við landið, Heimaey. Það er nauðsynlegt að gera þetta og ég þakka hv. þingmönnum fyrir að hafa lagt sitt af mörkum í þessari umræðu.

Ég vil einnig benda á að þessi þverpólitíska samstaða nær til flokka allt frá Vinstri grænum og yfir í Sjálfstæðisflokkinn og málið nýtur mikils stuðnings meðal þingmanna, sérstaklega í Suðurkjördæmi vegna þess að þar eru auðvitað flestir íbúar sem búa úti í eyju sem ekki er í vegasamgöngum við landið. Þetta á þó ekki síður við um hin kjördæmin þar sem eyjar eru líka. Ég fagna því hversu vel er tekið í þetta mál og vonandi er það ábending um það sem koma skal með afgreiðslu þess í framhaldinu.