151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

vaxtahækkun bankanna.

[13:44]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið, þessa ágætisframboðsræðu. Staðreyndin er reyndar sú að ójöfnuður er að aukast og hann vex dag frá degi. Það er staðreyndin. Við erum hér með upp undir 25.000 einstaklinga sem eru að detta inn á atvinnuleysisskrá og forsætisráðherra nefnir það ekki einu einasta orði. Hún segir bara: Heyrðu, við ríkisstjórnin erum núll og nix og höfum ekkert um það að segja þótt við eigum hér tvo ríkisbanka. Við höfum sennilega heldur ekkert um það að segja þótt seðlabankastjóri verji ekki betur fall krónu þannig að núna er fall krónunnar orðið tæplega 20%, sem fer beint út í verðlagið. Og á hverjum bitnar það helst? Hvernig horfir hæstv. forsætisráðherra fram hjá því að það sem er að gerast núna er fyrst og síðast að skella á fátækasta fólkinu í landinu? Það er ekki að skella á mér og hæstv. forsætisráðherra. Við höfum ekki verið skertar í launum, ekki um eina einustu krónu, heldur þvert á móti. Ég spyr: Flokkast það ekki undir ójöfnuð þegar við sjáum bilið alltaf breikka? Er eðlilegt að lækka bankaskatt á sama tíma og bankarnir hirða milljarða í arð og hækka vextina sína?