151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

jafnréttismál.

[13:54]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Málshöfðun hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, gegn konu sem sótti um starf ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu en laut í lægra haldi fyrir samflokksmanni ráðherra, hefur skiljanlega vakið undrun og furðu. Stjórn Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins er þannig gáttuð á málarekstrinum og segir hann óskiljanlegan. Engin dæmi séu um slíka málshöfðun. Hún setji fólk í fordæmalausa stöðu gagnvart ráðherra og geti orðið til þess að umsækjendur veigri sér við að sækja um starf hjá ríkinu.

Hæstv. menntamálaráðherra heldur hins vegar sínu striki. Í útvarpsviðtali á sunnudag sagði ráðherra að vandað hefði verið til verka, hún standi við ákvarðanir sínar og telji engan veginn harkalegt að fara í mál við einstakling. Þvert á móti sé hæstv. menntamálaráðherra fórnarlambið í málinu. Eða, með leyfi forseta: Ef ég tel að brotið hafi verið á mér hlýt ég að eiga sama rétt og viðkomandi einstaklingur til að sækja minn rétt.

Þann 2. júní sl. sagði hæstv. forsætisráðherra í ræðustól að málið yrði tekið til umræðu á næsta ríkisstjórnarfundi sem fram fór þremur dögum síðar. Ekki verður þó séð, af dagskrá ríkisstjórnarfunda, að þetta mál hafi nokkurn tímann verið rætt á þeim vettvangi, hvorki á næsta ríkisstjórnarfundi né nokkrum fundi síðan. Því liggur beinast við að spyrja hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur: Fékk ríkisstjórnin kynningu á úrskurði kærunefndar jafnréttismála eins og boðað var í júní? Hefur hæstv. forsætisráðherra kynnt sér forsendurnar fyrir málshöfðun hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra? Ef svo er, er hæstv. forsætisráðherra sammála því að brotið hafi verið á hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra?