151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

ummæli ráðherra um dómsmál.

[14:12]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Ég þakka hæstv. ráðherra innleggið, en hún svaraði ekki spurningunni. Hún var skýr; hvort ráðherra telji að þetta dómsmál snúist um hana sjálfa sem persónu og hvort rétt sé að ráðherra sitji í viðtali og tali um nafngreinda og ónafngreinda embættismenn sem ekki geta varið sig með þeim hætti sem hún varði sig.

Ég nefndi ekki að þetta mál snerist um karlmann eða konu, ég nefndi einfaldlega þá staðreynd, og það hlýt ég að mega, að kærunefnd komst að ákveðinni niðurstöðu í þessu máli. Vel má vera að það breytist í meðförum dómstóla. Staða málsins er sem stendur þessi: Brot gegn jafnréttislögum. En hér er einhvern veginn öllu snúið á hvolf. Það er þannig að viðkomandi konu var stefnt, og ráðherra hefur sjálfur talað um kynferði sitt í þessum efnum. Getur verið að viðbrögðin hafi eitthvað með það að gera hvaða hörku ráðherrann sýnir sjálfur í þessu máli? Alla jafna una menn svona úrskurði.