151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

búvörulög.

224. mál
[14:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í þessa umræðu um möguleika á aukinni framleiðslu í garðyrkju og ylrækt og aukinni grænmetisframleiðslu í landinu. Ég fagna því mjög að verið sé að leggja aukna fjármuni til garðyrkjunnar og til þeirra samninga sem voru gerðir, samkomulags milli Bændasamtakanna og ríkisins og Sambands garðyrkjubænda. Það samkomulag var gert í vor og hér erum við að framfylgja því með því að þingið fjalli um það og 200 milljónir á ári verði lagðar til þessara samninga næstu árin en áætlað er að endurskoða samningana 2023.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur mikla áherslu á það í sínum stjórnarsáttmála að við stuðlum að aukinni framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum og þar eru auðvitað garðyrkjan og ylræktin og grænmetisframleiðslan ofarlega á blaði. Þær aðstæður sem við búum við núna, þetta Covid-ástand sem er í landinu, hafa valdið því að hrikt hefur í mörgum stoðum samfélagsins og þar verðum við að leggja enn meiri áherslu á matvælaöryggi og innlenda matvælaframleiðslu, bæði til þess að fjölga störfum og styrkja okkur efnahagslega með því að spara gjaldeyri og geta framleitt sem mest af matvælum okkar hér innan lands með vistvænni orku og þeim tækifærum sem við höfum. Það er því mjög mikilvægt að við höfum sett okkur matvælastefnu sem var unnin á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, á vettvangi Matarauðs Íslands í samvinnu við fjölda hagsmunaaðila. Út úr þeirri vinnu kom mikið og merkilegt plagg sem við þurfum að fylgja vel eftir hér og úti í samfélaginu þar sem það á við hjá þessum atvinnugreinum.

Það hefur verið komið inn á það hér hve mikil tækifæri eru í ylrækt í landinu, bæði í ylrækt og útirækt, og við þurfum að styðja við þá sem eru að byggja sig upp á þeim vettvangi. Í pípunum eru hugmyndir um stóraukna framleiðslu, að gera eins konar stóriðju úr grænmetisframleiðslu þar sem tækifærin eru til staðar, þar sem jarðvarmi er mikill og gott aðgengi að raforku eins og á Suðurlandi. Þar þarf líka að byggja upp innviðina, dreifikerfið og aðgengi að orkunni, svo að hægt sé að fylgja því eftir. Það er okkar stjórnvalda að styðja sem best við það, bæði með því að byggja innviðina enn frekar upp, styrkja dreifikerfið og flutningskerfið, og gefa þeim sem vilja fara út í ylrækt og útiframleiðslu kost á því að hafa gott aðgengi að orku. Sú orka þarf að vera samkeppnishæf við það sem gerist í annarri framleiðslu. Við vitum að stóriðjan er með sína löngu samninga, sem leynd hvílir yfir, og við seljum um 80% af raforkuframleiðslu í landinu til stóriðjunnar. Ég tel að við eigum að leggja miklu meiri áherslu á að garðyrkjan og ylræktin sé líka okkar stóriðja. Við þurfum að horfa til þess að geta afhent orkuna á ásættanlegu verði til þessara greina.

Auðvitað má alltaf deila um 200 milljónir. Mætti það vera hærri upphæð? Auðvitað vilja allir fá hærri upphæð í einhverja slíka samninga. En ég held að þetta sé góð innspýting og viðbót við það sem var fyrir. Ég held að það sé líka gott að þetta hámark sé sett, að enginn framleiðandi fái meira en 10% af því sem lagt er til til þess að greiða niður dreifingu á rafmagni til greinarinnar. Þarna er verið að auka hámarksgreiðslur til framleiðenda úr 15% í 17,5%. Það er mikil nýsköpun í greininni og við vitum að alltaf er að fjölga þeim tegundum sem fólk er að vinna með og rækta. Ég held að það séu líka mikil tækifæri í því að hafa fjölbreytta vöru í framleiðslu, og það er hægt, menn hafa sýnt fram á það. Við erum heldur ekki með þau miklu eiturefni sem þekkjast í stóru framleiðslulöndunum, Hollandi og fleiri löndum, sem við flytjum inn grænmeti frá. Ég held að tækifærin liggi líka í því að byggja upp enn frekari lífræna ræktun. Við þurfum að vinna okkur áfram í því að fá vottun fyrir lífræna ræktun í okkar innlendu framleiðslu.

Ég held að þarna séum við á góðri leið með að styrkja enn frekar og efla innlenda matvælaframleiðslu. Við getum alltaf gert betur en þarna erum við að stíga stórt skref í átt að því sem við flest erum sammála um, þ.e. að innlend matvælaframleiðsla skipti máli fyrir matvælaöryggi þjóðarinnar, stuðli að lægra kolefnisspori — það er ekki gott að vera að flytja matvæli um hálfan hnöttinn — fjölgi störfum í landinu og styrki atvinnuuppbyggingu vítt og breitt um landið þar sem möguleikar eru til bæði ylræktar og útiræktunar. Við erum að stíga skref í átt að því að geta útvegað neytendum góða og heilnæma vöru, ræktaða við góð skilyrði, hreint loft og kjöraðstæður að mörgu leyti. Þó að við höfum okkar harða vetur getum við með ylræktinni og jarðvarmanum mætt því og einnig með aukinni nýsköpun og tækni sem er að þróast í þessum greinum.

Ég held að neytendur muni alltaf velja íslenska framleiðslu í grænmeti og garðyrkjuvörum ef hún stendur til boða og er samkeppnishæf, bæði í verði og gæðum. Það er ekki spurning með gæðin, en ég held að verðið haldist í hendur við það hvaða skilyrði garðyrkjunni eru búin. Með þessu aukna framlagi til hennar þá er hún samkeppnisfærari.

Ég tel líka mjög mikilvægt og brýnt að merkingar á íslensku framleiðslunni séu þannig að þær standi undir merki, að ekki sé verið að umpakka erlendu grænmeti, innfluttu grænmeti, undir fölsku flaggi. Það á ekki að merkja það eins og það sé íslensk framleiðsla ef það er í raun erlend framleiðsla umpökkuð hér á Íslandi því að þannig siglir varan undir fölsku flaggi til neytenda. Þó að umbúðirnar séu íslenskar og kannski merktar íslenska fánanum er ekki um íslenska framleiðslu að ræða. Ég held að þarna séum við á réttri leið við að styðja við innlenda landbúnaðarframleiðslu, í þessu tilfelli garðyrkju og ylrækt, og því ber að fagna.