151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

almenn hegningarlög.

267. mál
[15:49]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér í dag stjórnarfrumvarp um stafræna friðhelgi. Svipað frumvarp var upphaflega lagt fram á 148. löggjafarþingi, 2017–2018, af Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni okkar Pírata. Það frumvarp hét frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum um stafrænt kynferðisofbeldi, en í greinargerð sem María Rún Bjarnadóttir lögfræðingur vann fyrir ríkisstjórnina, lagði hún til að notað væri hugtakið kynferðisleg friðhelgi frekar en stafrænt kynferðisofbeldi þar sem það nái betur utan um málaflokkinn.

Gott og vel. Í greinargerð kemur einnig fram að aukin tækninotkun samfélagsins kalli á ný lög í þessum málaflokki þar sem núgildandi löggjöf um kynferðislega friðhelgi verndar einstaklinga ekki nógu vel. Birtingarmynd þessarar staðreyndar birtist m.a. í óskýrri dómaframkvæmd sem og þeim neikvæðu og oft alvarlegu afleiðingum sem þau sem verða fyrir slíku ofbeldi finna fyrir.

Í fyrrnefndri greinargerð segir María einnig að það vanti upp á stuðning og skilning í réttarvörslukerfinu í garð þeirra sem verða fyrir brotum á kynferðislegri friðhelgi. Þau upplifi m.a. þolendaskömm frá fulltrúum lögreglunnar í skýrslutökum. Lengi hefur verið nauðsyn á að stjórnvöld ráðist í heildstæða endurskoðun á málaflokknum. Því lögðu hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson og 23 aðrir hv. þingmenn allra flokka, nema Sjálfstæðisflokksins, tvívegis fram frumvörp hér á Alþingi um breytingu á almennum hegningarlögum um stafrænt kynferðisofbeldi. Með þeim var lagt bann við stafrænu kynferðisofbeldi og gerð refsiverð sú háttsemi að dreifa, birta eða framleiða mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án samþykkis hans, að viðlögðum sektum eða sex ára fangelsi. Þá var jafnframt lagt til að dreifing eða birting falsaðs mynd- eða hljóðefnis, hvort sem um er að ræða ljósmyndir, myndbönd eða annars konar myndefni sem sýnir nekt eða einstakling á kynferðislegan hátt án samþykkis hans, geti varðað sektum eða fangelsi.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að frumvörpin hafi ekki náð fram að ganga komu fram við þinglega meðferð þeirra skýr sjónarmið um að lagasetning væri til þess fallin að styrkja réttarvernd kynferðislegrar friðhelgi og meðferð slíkra mála innan réttarvörslukerfisins. Meðal þeirra sem settu þau sjónarmið fram voru Kvenréttindafélag Íslands og embætti ríkissaksóknara.

Kveikjan að frumvarpi Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, var hin svokallaða Free the nipple campaign, eða Íslenska brjóstabyltingin. Um var að ræða alþjóðlega, hugmyndafræðilega byltingu sem gekk út á að konur beruðu brjóst sín sem uppreisn gegn rótgrónum úreltum félagslegum gildum sem grundvallast á mismunun. Upphaf málsins hérlendis má rekja til atviks þann 26. mars árið 2015 þegar Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir setti myndir af brjóstum sínum inn á samfélagsmiðlinn Twitter undir #Freethenipple. Hún lýsti því yfir að tilgangurinn væri að vekja athygli á hefndarklámi og öðru ójafnrétti. Í kjölfarið fylgdu mörg hundruð íslenskar konur aðgerðinni eftir og settu inn á ýmsa samfélagsmiðla undir sömu formerkjum og Adda. Þó nokkrir gjörningar tengdir byltingunni voru haldnir á almannafæri og vöktu mikla athygli.

Erlendar rannsóknir benda til þess að konur verði frekar fyrir stafrænu kynferðisofbeldi en karlar. Þetta á við hvort sem um er að ræða fullorðna einstaklinga eða börn. Það er ljóst að konur verða frekar fyrir innrás í friðhelgi einkalífs en karlar og þegar um er að ræða karlkyns brotaþola er oftast um að ræða karlmenn í samkynhneigðum samböndum.

Það er klárt mál að breyta þarf lögum til að tryggja vernd þeirra sem verða fyrir stafrænu kynferðisofbeldi.

Aftur að frumvarpi Pírata. Eftir 1. umr. fór frumvarpið í nefnd sem gerði lítið annað en að svæfa málið, eins og títt er með þingmannamál stjórnarandstöðunnar. En hér erum við þó í dag, frumvarpið er komið fram sem stjórnarfrumvarp og því töluvert meiri líkur á að málið hljóti framgöngu hér innan þings og verði loksins að lögum. Og því ber að fagna. Aftur á móti eru liðin heil fimm ár síðan umrædd bylting fór fram og er sá tími sem liðinn er til marks um og dæmigerður fyrir hversu lengi þingið oft er að bregðast við ákalli samfélagsins. Frumvarpið byggir ofan á stjórnarskrárvarin réttindi er snúa að friðhelgi einkalífsins. Í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í friðhelgi einkalífsins felst fyrst og fremst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Jafnframt er litið svo á að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar samkvæmt ákvæðinu.

Forseti. Ég fagna því að þetta mál sé fram komið á ný. Um er að ræða mikilvægt mannréttindamál sem ég vonast sannarlega til að fái greiða framgöngu hér innan þings.