151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

almenn hegningarlög.

267. mál
[15:58]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Mig langaði að taka til máls um frumvarp dómsmálaráðherra um kynferðislega friðhelgi, fyrst og fremst til að lýsa yfir ánægju með að það sé komið fram. Undirliggjandi eru veigamiklir hagsmunir sem hafa á síðustu árum komið betur upp á yfirborðið í hinu opinbera samtali, kynferðisleg friðhelgi og kynferðislegur sjálfsákvörðunarréttur, og í hinu pólitíska samtali, enda þótt veruleikinn sé því miður sá að þetta eru vitaskuld ekki ný brot. En með tækniþróuninni, eins og hæstv. dómsmálaráðherra rakti hér í framsöguræðu, þá er þessi brotaflokkur því miður vaxandi. Þau sjónarmið sem stundum heyrðust, þegar þessi mál voru fyrst að koma fram í kastljósið, voru oft dálítið á þann veg að kannski væri um einkaréttarleg mál að ræða frekar en að þetta væri eitthvað fyrir refsikerfið að eiga við. Blessunarlega held ég að þau viðhorf hafi alveg yfirgefið okkur.

Við þekkjum það að utan að brot sem þessi hafa í mörgum tilvikum haft þær alvarlegu afleiðingar í för með sér að brotaþolar hafa tekið eigið líf í kjölfar þess að brotið hefur verið gegn þeim með þessum hætti og viðkvæmar myndir farið í mikla dreifingu. Ég nefndi að þessi brotaflokkur er því miður ekki nýr. Þetta er ekki nýr veruleiki fyrir lögreglu, þetta er ekki nýr veruleiki fyrir ákæruvald, þetta er ekki nýr veruleiki fyrir dómstóla og vitaskuld ekki heldur fyrir brotaþola. En tilfellið er, og staðreyndin er, að þó að þessi mál hafi sætt ákæru er verið að nota til þess ákvæði sem ekki voru smíðuð í þeim tilgangi að eiga við um þessi brot. Það felst auðvitað í því aukin viðurkenning að smíða sérstakt ákvæði núna eða orða það með sérstökum hætti, eins og á að gera í 199. gr. a, samkvæmt frumvarpinu, hver þessi brot eru þannig að ekki sé verið að nota ákvæði sem ekki eiga við. Þó að ákvæði sem notuð hafa verið hafi hlotið hljómgrunn hjá dómstólum og hægt hafi verið að beita þeim, t.d. ákvæðum um kynferðislega áreitni eða brot gegn blygðunarsemi, í þessum tilgangi þá eru þau ekki byggð á sömu hugmyndafræði, og eiga ekki við um þessi brot. Ákvæðið um brot gegn blygðunarsemi var einfaldlega smíðað áður en brot gegn hagsmunum fólks á netinu fyrirfundust.

Það er mikilvægt skref sem ráðherra er að stíga hér í dag með framlagningu þessa máls og ég fagna því. Ég hef sjálf reynslu af þessum brotum úr fyrra starfi og skrifaði sjálf með kollega mínum, Kolbrúnu Benediktsdóttur, grein í Úlfljót fyrir nokkrum árum, 2015 að mig minnir, um þörfina á því að setja ákvæði í þessu skyni. Ég verð að viðurkenna að ég á eftir að kynna mér efni þessa máls til fulls og betur, en ég hef rýnt það aðeins. Mér finnst mjög ánægjulegt að sjá þetta mál koma hér inn í þingsal og er það öðru sinni sem hingað eru að koma þarfar réttarbætur í þágu þolenda kynferðisbrota af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra. Ég verð að segja að mér finnst það spegla jákvæða sýn ráðherrans til jafnréttismála því að þetta er angi af þeirri umræðu. Við Íslendingar státum af því að vera heimsmeistarar í jafnrétti, ef svo má segja, samkvæmt mælingum World Economic Forum, og við erum líka mjög framarlega í samanburði við aðrar þjóðir varðandi mikla netnotkun, útbreiðslu efnis á netinu. Það hlýtur því að vera okkur umhugsunarefni og það hlýtur að vera markmið okkar, eins og ætti auðvitað að vera um allar aðrar þjóðir, en sér í lagi hjá þjóð með þessa stöðu, að tryggja líka jafnrétti kynjanna og stöðu kvenna gagnvart brotum á netinu. Mér finnst þetta jákvætt og það er skemmtilegt og ánægjulegt að sjá að það er töluvert annar bragur á orðfæri hæstv. dómsmálaráðherra en á því sem við heyrðum frá hæstv. menntamálaráðherra hér í dag.

Varðandi þá umræðu sem við heyrum oft, að þessi málaflokkur sé viðkvæmur með tilliti til marka milli tjáningarfrelsis annars vegar og friðhelgi einkalífs hins vegar, vil ég segja að þetta eru auðvitað hvort um sig grundvallarmannréttindi. En fyrir þá sem eru með þessi mál til meðferðar, t.d. innan lögreglu, þá er það yfirleitt ekki stóri hjallinn sem þarf að stíga yfir heldur frekar sjónarmið af tæknilegum toga. Þá þarf stundum að afla upplýsinga um IP-tölur. Það þarf samstarf við erlend lögregluyfirvöld o.s.frv. Við þekkjum það hver staðan er; einhver síða með efni af þessum toga eða öðrum sprettur upp, er tekin niður og sprettur upp jafnóðum. Í því samhengi held ég að það skipti máli, og ég efast ekki um að lögreglan mun setja það í forgang, að vakta þennan brotaflokk enn betur en ég myndi nú kannski gauka því að hæstv. ráðherra í því samhengi, þegar við verðum komin með þessa fínu löggjöf, sem verður vonandi fljótlega, að að því sé gætt að lögregla og ákæruvald hafi til þess bolmagn að sinna þessum brotaflokkum. Ég gæti trúað því að með því að þetta frumvarp verði að lögum geti kannski orðið aukinn þungi og enn frekari áhersla lögreglu á að ná utan um þessi mál. Með því er ég ekki að segja að svo hafi ekki verið áður en hér er einfaldlega komin fram betri verkfærakista fyrir lögreglu og ákæruvald.

Miðað við jákvæðar áherslur hæstv. dómsmálaráðherra í þessum málaflokki ætla ég að vera bjartsýn á að þessum jákvæðu skrefum hennar á þessu sviði muni einnig fylgja sú sýn að tryggja lögreglu, tryggja ákæruvaldinu og tryggja dómstólunum færi og svigrúm til að gera vel að þessu leyti. Ég minni í því sambandi á að við erum því miður enn í þeirri stöðu að málsmeðferðartími er að koma upp sem vandamál. Ég sá það síðast í fréttum í dag að dómur féll í nauðgunarmáli þar sem mér sýnist að niðurstaðan hafi verið sú að refsing ákærða hafi verið milduð með vísun í málsmeðferðartíma. Það er vandamál sem ég myndi helst vilja sjá að hyrfi.

Ég vil bara árétta það í lokin að ég er ánægð með frumvarpið og hlakka til að skoða það og rýna betur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að málið mun fá fína og vandaða meðferð í hv. allsherjarnefnd, hjá hv. þm. Páli Magnússyni, og ég vona að þetta góða frumvarp verði að lögum í lok þessa þings.