151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:06]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið, sem var lært, og ekki ætla ég nú að fara að standa hér í andsvörum við Platón og Sveinbjörn Egilsson og alla þá kappasveit. Mig langar kannski að nota tækifærið sem hún gaf mér til að árétta eitt sem mér gafst ekki tími til í ræðunni og má svo sem tengja við þessar hugrenningar um lærdóm og dyggðir. Mér þykir mjög mikilvægt að leggja áherslu á það í menntastefnu, og má jafnvel skerpa á því, að efla hér starfsnám. Ég held að það sé lykillinn að farsælu samfélagið á komandi tímum að okkur takist að byggja brýr þar sem þær eru einhvern veginn dálítið hrundar milli starfsnáms, milli iðnnáms, milli verknáms annars vegar og svo milli háskólamenntunar hins vegar. Ég tel að þarna á milli eigi að vera hraðbraut. Við höfum kannski í of ríkum mæli hyllst til að líta á þetta sem andstæður, annars vegar akademíska fræðilega þekkingu og svo hins vegar að kunna að nota hendurnar og heilann í einu. Ég held ég fari rétt með það að kannanir hafi leitt í ljós að Ísland sé í svona neðstu sætum hvað varðar sókn í starfsnám og iðnnám. Og ég held að þarna sé kannski verk að vinna fyrir okkur.