151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:10]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og hlakka til að fá upplýsingar frá henni um þessar tölur. Og talandi um brýr og mannvirkjagerð þá held ég að það sé ekki síður mikilvægt að byggja brýr, aðrar brýr, frá þeim sem eru úr íslensku fræðasamfélagi og yfir til þeirra sem hingað koma og hafa fengið menntun sína erlendis. Það hefur borið á því að þeir hafi ekki fengið menntun sína nægilega metna hér á Íslandi og hafa því ekki fengið störf við sitt hæfi og hafa kannski ekki fengið að njóta sín og hæfileika sinna í samfélaginu fyrir vikið. Við skulum muna í þessu sambandi að það fólk sem þróaði bóluefnið í Þýskalandi er af tyrknesku bergi brotið. Þar er um að ræða innflytjendur af því tagi sem sumir hverjir hafa jafnvel í litlum metum og halda að skili litlu til samfélaganna, sem er aldeilis öðru nær. Það er mjög mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að það komi þekking og að menningarstraumar eigi greiða leið inn í samfélagið og gefi því nýtt frjómagn. Ég held að það sé líka mikilvægt að leggja áherslu á það í menntastefnu okkar að byggja slíkar brýr.