151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta innlegg. Ég er alveg sammála því að ef við náum þessari menntastefnu fram er það bara hið besta mál. En það er annað sem er svolítið einkennandi í skólakerfinu og sem maður hefur rekið sig á, þ.e. einsleitni kerfisins að því leyti að við vitum t.d. að drengir sem glíma við lestrarörðugleika eða lesskilningsörðugleika og annað, eru kannski snillingar í einhverju öðru. Við gleymum oft að virkja þá. Við vitum sjálf að ef við höfum rosalega gaman af einhverju þá drekkum við það í okkur. Ef okkur finnst eitthvað rosalega leiðinlegt þá er mjög erfitt að eiga við það. Maður hefur oft rekið sig á það. Þeir eru kannski tölvusnillingar og þá þarf að virkja þann hluta. Það þarf að sjá til þess að maður þurfi ekki að vera snillingur í landafræði eða snillingur í að lesa trúarrit eða eitthvað annað til þess að fara í tölvunám, að hólfa það ekki niður svo maður geti tekið þá stefnu sem maður vill taka. Við þurfum ekki að setja okkur öll í það box, það þurfa ekki allir að vera snillingar í landafræði eða í einhverju, heldur er spurningin: Hefur þú gaman af því sem þú ert að gera? Og virkja þetta þannig að viðkomandi geti jafnvel orðið snillingur í tölvufræði eða í því sem hann hefur virkilega gaman af og ýta undir það sérstaklega.