151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[18:20]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að fjölbreytileiki sé í menntakerfi okkar. Við leggjum auðvitað áherslu á að bæta lesskilning og ég er á því að hann sé alveg gríðarlega mikilvægur. Eins og komið hefur fram í umræðunum sjáum við til að mynda hversu hátt hlutfall fanga glímir við lestrarörðugleika. Það hefur alltaf komið mjög illa við mann að menntakerfið hafi einhvern tíma mögulega brugðist þessum einstaklingum eða að þeir hafi þurft fyrr á miklu meiri aðstoð að halda.

Eins og kom fram í máli mínu hér fyrr sjáum við að það er munur á því hvenær íslenska menntakerfið kemur til aðstoðar þegar það eru til að mynda lestrarörðugleikar, við höfum verið að gera það á seinni stigum, þegar börnin eru eldri, meðan t.d. finnska menntakerfið kemur fyrr inn og með meiri stuðning. Og hvað gerist þá? Þá minnkar þörfin á stuðningi seinna meir þannig að viðkomandi aðili er betur til þess fallinn eða í betri aðstöðu til að ná tökum á sínu námi.

Ég tel að það sem kom fram í máli hv. þingmanns, um sköpun og gagnrýna hugsun, skipti öllu máli þessa dagana vegna þess að það er mjög auðvelt að ná sér í þekkingu, en skilurðu þekkinguna, geturðu gagnrýnt hana? Þess vegna leggjum við mikla áherslu á þennan þátt sem hefur auðvitað alltaf skipt mjög miklu máli en sérstaklega nú.