151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

atvinnuleysistryggingar.

300. mál
[18:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er svo rasandi bit yfir því að hæstv. ráðherra skuli vilja leggja fram mál sem mismunar fólki sem misst hefur vinnuna og fær enga vinnu vegna þess að hér er atvinnukreppa. Fólkið sem var atvinnulaust í febrúar fær enga vinnu vegna þess að hér er heimsfaraldur. Það er vegna heimsfaraldurs sem þessi 10.000 eru skilin eftir í þessari stöðu. Það er ekki nóg með að þau séu skilin eftir heldur hafa þau lengst verið atvinnulaus og eru í allra verstu stöðunni, glíma við langtímaatvinnuleysi, sem hefur ekki bara efnahagsleg áhrif heldur getur haft mjög slæm félagsleg áhrif sem geta leitt til heilsubrests og mikils kostnaðar fyrir ríkið til lengri tíma litið. Þetta er mismunun og þetta er óskynsamleg mismunun, forseti.

Síðan fer hæstv. ráðherra yfir það að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi gert rosalega mikið fyrir atvinnulausa. Eina aðgerðin til að bæta og mæta tekjufalli á heimilum atvinnulausra er að lengja tekjutengda tímabilið í sex mánuði. Það er eina aðgerðin til að mæta efnahagslegum áhrifum á heimilum atvinnulausra. Það er ekki hægt að hæla sér af því að greiða atvinnuleysisbætur sem launamenn hafa unnið sér inn réttindi fyrir. Það er skammarlegt að ríkisstjórnin skuli vera að leggja saman þá milljarða og segja: Sjáið þið hvað við erum aldeilis búin að gera vel fyrir atvinnulausa. Það er auðvitað kjaftæði, herra forseti. Eina aðgerðin er þessi (Forseti hringir.) þriggja mánaða viðbót við tekjutengda tímabilið og þau geta ekki skammast til að láta alla atvinnulausa fá viðbót.