151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

atvinnuleysistryggingar.

300. mál
[19:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Engu hef ég logið í ræðum mínum hér á Alþingi um stöðu atvinnulausra Íslendinga í þessari atvinnukreppu. Það sem ég er að gagnrýna er að það eru 10.000 manns sem voru atvinnulausir í febrúar sem fá enga bót í gegnum þessa einu leið hæstv. ríkisstjórnar til að bæta efnahag þeirra sem eru atvinnulausir, þ.e. venjulegt atvinnuleysi, ég er ekki að tala um hlutabótaleið, ég er ekki að tala um menntunarúrræði, ég er að tala um efnahag heimila sem hafa nú í marga mánuði glímt við atvinnuleysi.

Og ég hef fréttir að færa hæstv. ráðherra, sem stóð hér og hélt ræðu áðan. Langtímaatvinnuleysi er afar kostnaðarsamt fyrir samfélagið. Það er ekki bara erfitt fyrir heimilin og börnin sem þurfa að búa við slíkt heldur er það hættulegt heilsunni til lengri tíma og afar kostnaðarsamt fyrir samfélagið. Þess vegna er skynsamlegt að sjá til þess að a.m.k. allir atvinnulausir á árinu 2020 fái að njóta þeirra úrræða sem ríkisstjórnin spilar út, að hún skilji ekki eftir fólkið sem verst er sett. Hún er að gera það. Það er svo sorglegt.

Er það af því að þetta sé svo dýrt? Jú, auðvitað kostar þetta peninga. Það eru 166.000 kr. á mánuði sem munurinn er á grunnatvinnuleysisbótum og tekjutengdum bótum eins og þær geta verið mestar. Þrisvar sinnum það eru rétt tæplega 500.000 kr., 500.000 kr. á hvern einstakling sem var atvinnulaus í febrúar og reiknið þið nú. Þetta voru 10.000 manns. Þetta gæti allra mest orðið 5 milljarðar ef allir fá hámarkið í tekjutengingunni. En því miður held ég að það verði ekki þannig því að stór hluti af þeim sem misstu vinnuna í febrúar — það voru margir sem misstu vinnu í febrúar út af faraldrinum þegar hann var farinn að hafa áhrif á komu ferðamanna frá Kína, svo að dæmi sé tekið, strax í febrúar — var því miður að mestu lágtekjufólk. Þannig að þetta fer ekki upp í þessar 456.000 kr., ekki allur hópurinn. Þetta getur aldrei kostað ríkissjóð meira en 5 milljarða.

Út úr ríkissjóði eru nú þegar farnir rúmir 10 milljarðar sem ríkisstjórninni fannst sjálfsagt að styrkja fyrirtæki um til að hjálpa þeim við að segja upp fólki. Þetta myndi því aldrei ná helmingnum af þeirri upphæð sem nú þegar er farin út úr ríkissjóði í þá aðgerð. Það er því ekki eins og þetta sé stóra aðgerðin í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar þar sem tugir milljarða hafa farið í að styrkja fyrirtækin. Ég sé ekki eftir þeim milljörðum, en mér finnst að ríkisstjórnin geti litið á efnahag heimilanna líkt og fyrirtækjanna. Þarna er svo greinilegt óréttlæti og misrétti á ferð sem endurspeglast í þessu frumvarpi. Það var auðvitað klárt í byrjun september, þegar þeir voru skildir eftir sem voru á grunnatvinnuleysisbótum í ágúst, og nú rúmum tveimur mánuðum seinna kemur einhver leiðrétting. Þá eru þeir skildir eftir sem voru atvinnulausir í febrúar.

Ég á ekki orð, forseti, yfir það hvernig þessi ríkisstjórn hagar sér gagnvart fólki sem misst hefur vinnuna í atvinnukreppu, dýpstu kreppu í 100 ár, að hún skuli voga sér að fara út í aðgerðir og láta þær ekki ganga yfir alla sem misst hafa vinnuna, bara suma.

Herra forseti. Grunnatvinnuleysisbætur eru núna 289.510 kr. á mánuði eða um 86% af lágmarkstekjutryggingu. 1. janúar hækkar lágmarkstekjutryggingin meira en grunnatvinnuleysisbæturnar. Þær fara 1. janúar upp í tæpar 300.000 kr. á meðan lágmarkstekjutryggingin fer upp í 351.000 kr. Þarna munar 51.000 kr. á mánuði á lægstu launum og grunnatvinnuleysisbótum. Við í Samfylkingunni höfum lagt fram tillögur þess efnis að það eigi að hækka grunnatvinnuleysisbætur í það minnsta upp í 95% af lágmarkstekjutryggingunni. Það gerðum við árið 2009 þegar Samfylkingin og Vinstri grænir voru í ríkisstjórn til að mæta þeirri erfiðu stöðu sem þá var uppi.

Í atvinnukreppu lítum við öðruvísi á atvinnuleysi en í góðæri þegar næga vinnu að fá. Það er auðvitað eðlilegt. Það eru ríki úti um allan heim að koma með einum eða öðrum hætti að því að bæta efnahag þeirra heimila sem glíma nú við atvinnuleysi. En þetta er eina aðgerðin sem fer beint inn í atvinnuleysistryggingarnar sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra var að mæla fyrir hér áðan. Það gildir ekki einu sinni um nema rétt um helming þeirra sem eru atvinnulausir.

Þannig að það er eitt, það þarf að hækka grunnatvinnuleysisbæturnar. Ef ríkisstjórninni líður eitthvað illa með að gera það varanlega, að miða við að grunnatvinnuleysistryggingar verði 95% af lágmarkslaunatryggingunni, má gera það tímabundið. Það má alveg gera tímabundið. Ef við segjum að við gerðum það bara í nokkra mánuði, hálft árið eða svo, myndi strax muna um það. Fólk munar um það. Sú hækkun mun fara beint út í hagkerfið vegna þess að fólkið mun ekki geta gert annað en að fara út í búð og kaupa nauðsynjar. Það er því líka til að örva hagkerfið og skapa atvinnu þannig að það er aðgerð sem við ættum að fara út í.

Annað er jólabónus. Jólabónus hefur verið greiddur til atvinnulausra. Það var gert í fyrra. Þá vorum við ekki að glíma við þessa djúpu kreppu. Ég hef að vísu ekkert séð um það. Það getur verið að það sé ein af aðgerðunum sem hæstv. ráðherra segir að eigi að grípa til. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að atvinnulausir fái í það minnsta jafn háan jólabónus og þeir njóta sem búa við lífskjarasamningana svokölluðu. Auðvitað ættu öryrkjar og lífeyrisþegar einnig að fá slíkan bónus.

Síðan þarf að lengja tímabilið, atvinnuleysisbótatímabilið. Það er núna 30 mánuðir en það þarf að lengja það bótatímabil um a.m.k. ár til að hafa einhvern fyrirsjáanleika í þessu kerfi svo að þeir sem eru núna að klára bótatímabil sitt eigi það ekki á hættu að lenda á félagsþjónustu sveitarfélaga sem þýðir enn verri kjör en atvinnuleysisbæturnar eru. Að lengja tímabilið um 12 mánuði væri til bóta.

Annað sem atvinnurekendur hafa kallað eftir — þar sem ríkisstjórnin virðist einhvern veginn hlusta betur þegar atvinnurekendur og fyrirtæki tala en þegar talað er fyrir hönd atvinnulausra einstaklinga — og við höfum orðið vör við það í hv. efnahags- og viðskiptanefnd er að hlutabótaleiðin verði framlengd. Við höfum líka lagt það til í Samfylkingunni. Það þarf að framlengja hana a.m.k. fram á mitt næsta ár, því að jafnvel þó að bóluefni komi á næstu dögum tekur sinn tíma að koma atvinnulífinu hér í gang og það er betra fyrir flest fyrirtæki að halda ráðningarsamningi við fleiri starfsmenn en færri. Þess vegna þarf að fara með hlutfallið niður í 25% en ekki hafa það 50% eins og það er í dag af því að auðvitað vilja fyrirtækin halda í fólkið sem er með reynsluna og getur aðstoðað við að koma fyrirtækjunum hratt af stað þegar aðstæður leyfa.

Herra forseti. Ég sé að tíminn hleypur frá mér. Það er eitt sem vantar líka sárlega hjá hæstv. ríkisstjórn og ég skil ekki hvers vegna hún er ekki búin að koma með ráð eða kalla saman hóp til að finna út úr því að á Suðurnesjum, sem er landshluti þar sem búa tæplega 30.000 manns, er fjórða hver kona atvinnulaus. Það er fjórða hver kona atvinnulaus á Suðurnesjum. En aðgerðirnar sem ríkisstjórnin hefur gripið til til að reyna að glæða atvinnulífið snúa að langstærstum hluta að karlastörfum. Það er alveg ljóst að grípa þarf til einhverra ráða þarna og ef ríkisstjórnin er bara ráðþrota, á ekki neinar hugmyndir, dettur ekkert snjallræði í hug, þá vil ég ráðleggja hæstv. ríkisstjórn að kalla saman fólk, bæði úr stjórnmálum og atvinnulífi, til þess að leggja höfuð í bleyti og finna snjallar lausnir út úr þeim vanda sem við erum í.

Að lokum, forseti, vil ég segja þetta: Við erum núna að glíma við bráðavanda og bráðavandinn er ekki síst á heimilum atvinnulausra. Þar þarf að stíga myndarlega inn af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það þarf auðvitað að mæta sveitarfélögum á þeim stöðum þar sem atvinnuleysið er mest og sjá til þess að sveitarfélögin geti haldið uppi nærþjónustu, geti svarað kalli um aukna félagslega þjónustu og barnavernd á þessum erfiðu tímum og að þau þurfi ekki að skera niður í framkvæmdum og fækka þannig störfum. Við þurfum að gæta að velferðinni, gæta að heilbrigðisþjónustunni, bæta í mönnun til að koma til móts við stöðuna eins og hún er og bæta hana frá því sem hún var, því ekki var hún beysin þegar heimsfaraldurinn skall á okkur.

Að lokum þarf að huga að því hvernig við ætlum að fara út úr þessari kreppu, huga að grænni uppbyggingu, þannig að við stígum upp úr erfiðleikunum til að fara á betri stað en við vorum þegar heimsfaraldurinn skall á.