151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

vextir og verðtrygging o.fl.

38. mál
[19:19]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um vísitölu neysluverðs og lögum um fasteignalán til neytenda, þ.e. afnám verðtryggingar á neytendalánum. Með mér á frumvarpinu er hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson.

Í I. kafla frumvarpsins, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum, segir í 1. gr:

„Á eftir 1. mgr. 14. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Óheimilt er að verðtryggja neytendalán eða fasteignalán til neytenda.“

Í II. kafla er breyting á lögum um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995, með síðari breytingum. 2. gr.:

„Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Á tímabilinu 1. nóvember 2020 til 31. október 2021 skal vísitala neysluverðs ekki taka breytingum sem leiða til hækkunar.“

Í III. kafla er breyting á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, með síðari breytingum. 3. gr.:

„Við 1. mgr. 23. gr. laganna bætist nýr töluliður, 2. töluliður, svohljóðandi:

Óverðtryggðs fasteignaláns sem miðar einungis að uppgreiðslu eldra verðtryggðs fasteignaláns eða -lána ásamt lántökukostnaði, svo fremi að eitt þeirra sé verðtryggt.“

4. gr. hljóðar svo: „Lög þessi öðlist þegar gildi.“

Það hefur ítrekað og lengi verið kallað eftir því að afnema verðtryggingu, sérstaklega á neyslulán og lán til íbúðarkaupa. Fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að hún ætli að líta til verðtryggingar, væntanlega þá að afnema hana í einhverjum skrefum. Ég veit ekki alveg hver viljinn er, eitthvað var verið að nefna hana þar. En hins vegar er alveg ljóst að við erum nú stödd í miðjum heimsfaraldri. Við erum nú stödd í einni mestu efnahagskreppu sem yfir þjóðfélagið hefur riðið. Staðreyndin er líka sú að hér hefur krónan fallið um tæp 20% á árinu. Allt þetta fer beint út í verðlagið eðli málsins samkvæmt, og bitnar á þeim sem síst skyldi. Allar nauðsynjavörur hækka, allar innfluttar vörur hækka, afleiður af því hækka, þ.e. innfluttar vörur hækka sem við þurfum að nota við framleiðslu hér innan lands. Öll uppskrift að verðbólgu er núna í farvatninu. Það er alveg sama hvaða aðilar og hvaða greiningardeildir hafa komið að málinu, þegar þau eru spurð út í hvort við getum sagt með góðri samvisku sagt að hér verði ekki verðbólguskot, segja þau: Nei, það er ekki hægt. Hins vegar er það látið fylgja sögunni að það sé hins vegar mun betri staða hjá okkur núna í ríkisbúskapnum hvað varðar það að takast á við þá kreppu sem við erum að ganga í gegnum núna en þegar við gengum í gegnum efnahagshrunið 2008.

Með leyfi forseta, ætla ég að vísa í greinargerðina með þessu ágæta frumvarpi, sem ætti nú í rauninni að taka fagnandi hér, a.m.k. ríkisstjórn sem vill allt fyrir alla gera að eigin sögn og sérstaklega þá sem höllustum fæti standa og síðast en ekki síst segist þessi ríkisstjórn vera að verja heimili landsins og fjölskyldurnar. Þetta frumvarp er eingöngu til þess gert og lagt fram í þeim tilgangi.

Í greinargerð segir að vegna óstöðugleika íslensku krónunnar og fákeppni á bankamarkaði hafi íslenskir neytendur þurft að fjármagna húsnæðiskaup með töku verðtryggðra lána, en það hefur valdið þjóðinni skaða. Nú segja einhverjir: Já, en það er líka í boði að taka óverðtryggð lán. Hvað er að ykkur? Maður þarf ekki taka verðtryggt lán, er það? En staðreyndin er sú og allir vita það sem vilja, að verðtryggða lánið ber lægri vexti, þannig að óhjákvæmilega leita menn frekar í það, þeir sitja frekar uppi með verðtryggða lánið. Búið er að lækka stýrivexti, sem eru náttúrlega algjörlega í sögulegu lágmarki, sem er frábært, sérstaklega ef neytendur fengju að njóta þess í ríkara mæli, því að 1% stýrivextir skila nú í kringum 4–4,5% og upp undir 5% vöxtum hjá bankastofnunum sem nú hafa vogað sér, þ.e. tveir ríkisbankar, meira að segja að hækka vextina.

Það hefur valdið þjóðinni og stórum hlut hennar miklum skaða að fjármagna húsnæðiskaup sín með verðtryggðum lánum. Þrátt fyrir að standa í skilum með skuldbindingar sínar mega lántakar búast við því að höfuðstóll lána þeirra hækki umtalsvert með litlum fyrirvara og ef það verður verðbólguskot, ef verðbólgan fer af stað hækkar lánið umtalsvert. Já, þetta raungerðist í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Þá hækkuðu skuldir heimilanna verulega á skömmum tíma með þeim afleiðingum að fjöldi fólks missti heimili sín, þúsundir einstaklinga, ég held það hafi verið á bilinu 12.000–15.000 fjölskyldur sem misstu heimili sín. Við viljum ekki fara þangað aftur, engan veginn. En nú, vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, stefnir í einn mesta efnahagssamdrátt í heila öld, hrun í gjaldeyristekjum og metfjölda atvinnulausra þrátt fyrir lága vexti og möguleika á endurfjármögnun. Með töku óverðtryggðra lána geta fjölmargir ekki breytt skuldum sínum með endurfjármögnun vegna atvinnumissis eða af öðrum ástæðum.

Þeir sem skulda verðtryggð lán eru berskjaldaðir gagnvart þessu, algerlega. Nauðsynlegt er að vernda heimili landsins fyrir hörðustu áhrifum verðbólguskots. Verðtryggð húsnæðislán taka mið af mánaðarlegum breytingum á vísitölu neysluverðs, samanber 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Lagt er til að þak verði sett á vísitölu neysluverðs sem komi í veg fyrir áhrif verðbólguskots á höfuðstól verðtryggðra lána á næstu 12 mánuðum. Með þessu er hægt að verja heimili landsins fyrir óvæntu verðbólguskoti á erfiðum tímum. Og það ætti jú að vera vilji okkar allra, kjörinna fulltrúa, að gera það fyrir kjósendur og þjóðina sem kom okkur hingað inn á hið háa Alþingi. Þá ætti það ekki að hafa veruleg áhrif á hagsmuni fjármálafyrirtækja þótt þak yrði sett á verðtryggð lán enda væri það til skamms tíma.

Jafnframt er lagt til að verðtrygging húsnæðislána verði alfarið afnumin. Verðtrygging húsnæðislána getur valdið miklum skaða í þjóðfélagi sem býr við sveiflukenndan gjaldmiðil. Það er því nauðsynlegt að leggja bann við töku verðtryggðra húsnæðislána svo að heimili landsins verði ekki fyrir því að missa allt eigið fé sitt í hverri einustu kreppu. Þar sem ekki er hægt að afnema verðtryggingu af gildandi lánum er nauðsynlegt að tryggja að fólk geti endurfjármagnað verðtryggð lán sín. Einnig er brýnt að niðurstöður lánshæfis- og greiðslumats standi ekki í vegi fyrir því að skuldari geti breytt verðtryggðu húsnæðisláni sínu í óverðtryggt lán. Til að liðka fyrir endurfjármögnun er því lagt til að ekki þurfi að fara fram lánshæfis- og greiðslumat þegar neytandi skiptir út eldra verðtryggðu fasteignaláni fyrir óverðtryggt lán.

Hér er um mikilvægt mál að ræða sem nauðsynlegt er að komi til framkvæmda sem fyrst, áður en áhrifa verðbólgu fer að gæta og þungi þeirra áhrifa bitnar á heimilum landsins.

Í 1. mgr. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu er að finna lagaheimild fyrir því að verðtryggja lánsfé og sparifé. Með frumvarpinu er lagt til að á eftir 1. mgr. 14. gr. komi ný málsgrein sem kveði á um að neytendalán og fasteignalán megi ekki verðtryggja. Það er ekki markmið þessa ákvæðis að girða fyrir hvers konar verðtryggingu, eftir sem áður verður hægt að verðtryggja sparifé. Þá verður áfram heimilt að verðtryggja þau lán sem ekki heyra undir lög um neytendalán eða lög um fasteignalán.

Í 2. gr. er lagt að ákvæði til bráðabirgða verði sett í lög um vísitölu neysluverðs. Ákvæðið kveður á um að vísitalan muni ekki taka breytingum sem leiði til hækkunar á tímabilinu 1. nóvember 2020 til 31. október 2021. Að tímabilinu loknu verður svo vísitalan reiknuð með hefðbundnu sniði. Þar sem vísitalan er almennt reiknuð og uppfærð á mánaðarfresti verður vísitalan ekki framreiknuð miðað við þær breytingar sem verða á verðlagi þegar þak er á vísitölunni. Að öðrum kosti yrði hætta á því að verðtryggð lán myndu stórhækka strax að tímabilinu loknu og að viðskiptabankar myndu halda að sér höndum í nýjum lánveitingum í þeirri von að fá að tímabilinu loknu fullar verðbætur á lán hjá þeim sem ekki náðu að endurfjármagna eldri verðtryggð lán með nýjum óverðtryggðum lánum.

Ég er svo sem búin að koma að þessu flestu áður. Ég ætla að fara í greinargerðina vegna þess að þar eru ágætisskýringar með þeim breytingum sem eru lagðar til með þessu frumvarpi. Um 3. gr. segir að til þess að afnám verðtryggingar skili sér til heimilanna í landinu verði skuldarar að eiga þess kost að endurfjármagna verðtryggð lán sín. Vegna aðstæðna í landinu og efnahagsáhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru hefur fjöldi fólks misst atvinnu sína. Af þeim sökum muni það reynast mörgum erfitt að standast lánshæfis- og greiðslumat við endurfjármögnun lána. Til að liðka fyrir endurfjármögnun verðtryggðra lána er lagt til að ekki þurfi að framkvæma lánshæfis- og greiðslumat vegna fasteignaláns sem miðar að því að endurfjármagna verðtryggt fasteignalán. Algengt er að á fasteignum hvíli fleiri en eitt lán og heimilar ákvæðið einnig endurfjármögnun án lánshæfis- og greiðslumats þegar endurfjármögnun lýtur að fleiri en einu láni svo fremi að eitt þeirra sé verðtryggt. Ákvæðið er sambærilegt undanþágu 1. töluliðar 1. mgr. 23. gr. laga um fasteignalán til neytenda, sem heimilar undanþágu frá skyldu til að framkvæma lánshæfis- og greiðslumat, með þeirri undantekningu þó að 1. töluliður gerir kröfur um að reglulegar endurgreiðslur hækki ekki við endurfjármögnun. Þar sem óverðtryggð lán bera almennt hærri greiðslubyrði myndi undanþága 1. töluliðar í flestum tilvikum ekki nýtast við endurfjármögnun verðtryggðs láns með töku óverðtryggðs láns. Er af þeim sökum ekki fjallað sérstaklega um fjárhæðir reglulegra endurgreiðslna í ákvæðinu.

Virðulegi forseti. Ég segi aðeins þetta: Ef einhvern tíma hefur verið ástæða til þess að ráðast í það að afnema verðtrygginguna algerlega af neytenda- og fasteignalánum, þá er það núna. Kallað hefur verið eftir nákvæmlega þessari aðgerð í áraraðir, nánast síðan þessi ófögnuður var settur á lánin. Af hverju skyldu bankarnir og lánastofnanir vera gyrt hér með belti og axlaböndum þegar um leið og eitthvað bregður út af er það almenningur og íbúðareigendur sem eiga að missa allt niður um sig, missa eignir sínar og standa berstrípaðir úti á götu? Af hverju skyldum við vera með svoleiðis stjórnarfar? Ég get engan veginn skilið það. Fólkið í landinu kallar eftir nákvæmlega þessum breytingum. Það er fals, algjört fals að ætla að reyna að segja: Jú, þið getið bara tekið óverðtryggð lán, ef þið viljið. Óverðtryggðu lánin eru miklu dýrari, bera miklu hærri vexti og jafnvel þó að talað sé um fasta vexti er það líka fals. Fastir vextir yrðu ekki fastir vextir, bankarnir geta enn og aftur, eftir einhvern tíma, endurskoðað föstu vextina og þá örugglega ekki endurskoðað þá til lækkunar. Þeir munu sennilega aldrei endurskoða þá nema til hækkunar. Það er alla vega það sem við höfum þekkt í gegnum tíðina í okkar ágæta landi, að ef það gerist, ef eitthvað á að vera til lækkunar og ívilnunar þá verður það varla dregið upp úr nokkrum hér með töngum. En ef það á að vera til íþyngingar og hækkunar og aukinna útgjalda fyrir almenning þá rennur það í gegn eins og heitan lummur. En við sjáum til.

Ég vísa nú málinu til hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Ég vona sannarlega að tækifærið verði nýtt núna til þess að afnema þann ófögnuð sem verðtryggingin er á neytenda- og fasteignalánum.