151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

vextir og verðtrygging o.fl.

38. mál
[19:42]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að koma í andsvar aftur með öll ljós kveikt, eins og hún segir, en bara enginn heima. (Gripið fram í: Ha?) Það er nú ekki gott. Staðreyndin er sú að það sem við erum að tala um og ég bendi ítrekað á er að það er ekki um val að ræða þegar einstaklingur er nánast þvingaður til að taka lán, sem hann getur greitt af þótt það sé verðtryggt, og taka þá áhættu að lenda í nákvæmlega þeirri stöðu sem við lentum í í hruninu. Ég var með 4 millj. kr. lán og það fór upp í 11,3 milljónir nánast á einni nóttu. Þetta eru engin vísindi og þetta er það sem allir þekkja og allir vita, sérstaklega þeir sem misstu heimili sín og blæddi vegna þessa og eru ekki búnir að ná sér enn. Það er í rauninni með ólíkindum að það sé eitthvert vandamál að ætla að afnema verðtryggingu á neytenda- og fasteignalán. (BHar: Banna.) Bara að afnema, afnema þessa verðtryggingu með öllu, bara út með verðtrygginguna. Það hefur í rauninni verið ákall eftir því lengi og það hefur ekkert breyst í mínum huga, alls ekki.

Flokkur fólksins er að berjast fyrir fátækasta fólkið. Við viljum einmitt að það hafi val, að það sé ekki þvingað í aðgerðir sem hugsanlega verða til þess að það missi heimili sín þegar við erum að ganga í gegnum kreppu á tíu ára fresti virðist vera, hvort sem það er kórónuveirufaraldur eða eitthvað annað. Þannig að ég segi bara burt með þessa verðtryggingu og þó fyrr hefði verið. Það er ekki eins og við séum ekki að tryggja sparifé landsmanna. Það er ekki verið að afnema tryggingu á neinu slíku. Hér er einungis verið að tala um fasteignamarkaðinn. Við sjáum enga ástæðu til þess að girða enn þá betur utan um fjármagnseigendur, peningaöflin í landinu, bankana og lánveitendur vegna íbúðalána, bara alls ekki.

Þannig að ég hlakka líka til að hv. þingmaður taki utan um málið inni í hv. efnahags- og viðskiptanefnd (Forseti hringir.) og ég vona að öll ljós verði kveikt hjá henni þá og hún verði heima.