151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr. og 350.000 kr. lágmark til framfærslu lífeyrisþega.

46. mál
[20:06]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um skattleysi launatekna undir 350.000 kr. Mikið er nú yndislegt að mæla fyrir þessu og ég vildi bara að allir væru að mæla með þessu með mér, við öll 63. Eitt er alveg víst, það er enginn sem ríður feitum hesti frá því að vera með 350.000 kr. á mánuði. Með mér á þessari þingsályktunartillögu er minn ágæti samflokksmaður og þingflokksformaður Flokks fólksins, Guðmundur Ingi Kristinsson.

Þar segir að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir árslok 2020 sem kveði í fyrsta lagi á um að tekinn verði upp fallandi persónuafsláttur þannig að skattleysismörk verði við 350.000 kr. og að persónuafsláttur falli niður við ríflega 945.000 kr. á mánuði, sem sagt við efsta skattþrepið.

Í öðru lagi að persónuafsláttur falli eftir sveigðu ferli þannig að vendipunktur, miðað við persónuafslátt á tekjuárinu 2019, miðist við 575.000 kr. mánaðartekjur, þ.e. lægsta skattþrepið.

Í þriðja lagi að breytingar verði gerðar á skiptingu útsvars og tekjuskatts af skattstofni til að jafna tekjumissi vegna hækkunar skattleysismarka á milli ríkis og sveitarfélaga. Eins og við vitum fer stærsti hlutinn af þeim álögum sem teknar eru af lægst launaða fólkinu í útsvarið. Við verðum því að tryggja eins og kostur er að sveitarfélögin verði ekki af tekjum sínum.

Í fjórða lagi að fullur örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir tryggi lífeyrisþegum 350.000 kr. til lágmarksframfærslu á mánuði, skatta- og skerðingarlaust.

Í greinargerð með ályktuninni segir að á 150. löggjafarþingi hafi Flokkur fólksins lagt fram tvær þingsályktunartillögur sem höfðu það að markmiði að tryggja fátæku fólki viðunandi tekjur til framfærslu. Annars vegar var lagt til að skattleysismörk tekjuskatts myndu hækka í 350.000 kr. og að tekinn yrði upp fallandi persónuafsláttur. Það var 9. mál. Hins vegar var lagt til að lífeyrir almannatrygginga yrði hækkaður þannig að hann tryggði lífeyrisþegum 300.000 kr. í ráðstöfunartekjur eftir skatta og skerðingar. Í ljósi þess að hér er um að ræða tvær tillögur sem hafa það að markmiði að vinna gegn fátækt þykir nú rétt að sameina málin tvö. Þá er lagt til að lágmarksframfærsla almannatrygginga miðist við sömu fjárhæð og skattleysismörk almennt, enda má gera ráð fyrir því að framfærsluþörf lífeyrisþega sé nákvæmlega jafn mikil og framfærsluþörf annarra.

Hækkun skattleysismarka og fallandi persónuafsláttur: Á undanförnum árum hefur íslenskur efnahagur dafnað. Á sama tíma hefur fjárhagsstaða íslenska ríkisins batnað og verðlag haldist stöðugt. Launaþróun hefur einnig verið jákvæð. Þrátt fyrir mikinn árangur síðustu ára hefur ábatinn ekki skilað sér til allra. Nú er staðan þó önnur. Fjöldi fólks hefur misst atvinnu eða orðið fyrir annars konar fjárhagslegum örðugleikum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Í fyrstu bundu menn vonir við að efnahagsleg áhrif faraldursins yrðu skammvinn og að við myndum fljótt ná að rétta úr kútnum á ný. Nú er útlitið orðið dekkra og ljóst er að við erum að sigla inn í alvarlega kreppu. Í raun og veru ætti bara að segja að það er algerlega á hreinu að við erum í auga stormsins, í alveg svakalega djúpri kreppu. Á slíkum tímum er nauðsynlegt að standa vörð um þá sem finna mest fyrir áhrifum kreppunnar. Það eru þeir sem hafa minnst milli handanna. Eflaust munu margir kalla þessar tillögur ótímabærar þar sem nú þurfi að halda að sér höndum í ríkisfjármálum. Staðreyndin er þó einfaldlega sú að fólkið í landinu getur ekki gengið í gegnum enn eina kreppuna nema það fái þær kjarabætur sem áttu að skila sér til þess í góðærinu.

Í skýrslu um dreifingu skattbyrði sem unnin var fyrir stéttarfélagið Eflingu og birt í febrúar 2019 kemur fram að milli áranna 1993 og 2015 lækkaði skattbyrði hæstu tekjuhópanna en skattbyrði lægstu tekjuhópanna jókst. Á sama tíma hefur fasteignaverð hækkað verulega en vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis hefur á síðasta áratug hækkað hvorki meira né minna en úr 218,4 stigum í 449,7 stig miðað við ársmeðaltal samkvæmt tölum Hagstofunnar. Sú þróun kemur verst við lágtekjufólk sem þarf að verja stærstum hluta tekna sinna í húsnæði. Afleiðingarnar birtast m.a. í því að hlutfall leigjenda hefur aukist og ungmenni flytja nú mun síðar að heiman en áður þekktist. Á sama tíma hafa laun hinna tekjuhæstu hækkað verulega. Sífellt berast fréttir af ofurkaupi stjórnenda ýmissa fyrirtækja og yfirmenn ríkisstofnana hafa hlotið umtalsverðar launahækkanir. Miðgildi tekna er nú um 473.000 kr. á mánuði en meðaltekjur eru talsvert hærri, um 572.000 kr. samkvæmt tölum Hagstofunnar. Það er því ljóst að góðærið skilaði sér ekki jafnt til allra, öfugt við það sem svo oft hefur verið haldið fram hér í þessum ágæta sal, að það sé verið að hugsa jafnt um alla. Það er bara ekki rétt.

Mikil umræða hefur átt sér stað síðustu ár um hvernig breyta eigi skattkerfinu þannig að það íþyngi ekki þeim sem minnstar tekjur hafa. Meðal annars hafa verið lagðar fram tillögur um aukna þrepaskiptingu, eignarskatta, lækkun skatthlutfalls og hærri skattleysismörk. Auk framangreinds hefur einnig verið fjallað um að hækka skattleysismörk og miða við fallandi persónuafslátt. Fallandi persónuafsláttur felur það í sér að eftir að skattleysismörkum er náð lækkar persónuafslátturinn í samræmi við tekjuaukningu þar til hann fellur síðan að lokum algjörlega niður.

Það sem við erum einfaldlega að boða hér er það sem við höfum sagt allan tímann: Þeir sem eru tekjuhæstir hér í samfélaginu, eru með tekjur sem eru komnar í 900.000 kr. á mánuði, hátt í milljón á mánuði, geta einfaldlega séð af þeim ríflega 54.000 kr. sem þeir fá í persónuafslátt og látið þær færast niður til þeirra tekjulægstu, fátæka fólksins í samfélaginu, til að reyna að hífa framfærslu þeirra aðeins upp. Það er jöfnuður, virðulegi forseti. Það er a.m.k. tilhneiging í þá átt að reyna með góðum vilja að jafna kjörin í samfélaginu og reyna að koma til móts við fátækasta fólkið í þessu landi.

Ég ætla ekki að fara í gegnum alla þessa greinargerð en það er alveg ljóst að þetta mun nýtast þeim langbest sem eru með tekjur undir 575.000 kr. Þegar við erum að tala um skattleysi á tekjur upp á 350.000 kr. er það liður í að greiða þann kostnað með því að taka persónuafsláttinn frá þeim ríkari og færa til hinna fátæku.

Í september 2018 kom út skýrsla um jöfnuð í skattkerfinu sem unnin var fyrir þingflokk Flokks fólksins. Við höfum í rauninni unnið stöðugt að þessum málum alveg frá því að við komum inn á þing. Við höfum talað endalaust fyrir lágmarksframfærslu og það undir ríkisstjórnarforystu Vinstri grænna sem kenna sig við jöfnuð og segjast vilja hjálpa fátækasta fólkinu en það er eins og endranær. Það er alveg á hreinu að hækkun skattleysismarka mun skila sér í auknum ráðstöfunartekjum hjá lífeyrisþegum og atvinnuleitendum. Hátt í 25.000 einstaklingar eru atvinnulausir í dag. Þúsundir eru að fara úr því að vera með tekjur sem þeir gátu áður framfleytt sér þokkalega á, í að fara á strípaðar atvinnuleysisbætur, 289.000 kr. á mánuði. Skattleysismörk eru nú talsvert lægri en grunnframfærsla samkvæmt almannatryggingum og grunnatvinnuleysisbætur. Breytingin mun því veita þeim nauðsynlegan stuðning sem mest þurfa á stuðningi að halda, eins og áður sagði.

Ég ætla að lokum að segja um hækkun lífeyris almannatrygginga að lægstu mánaðarlegu greiðslur til lífeyrisþega sem engar aðrar tekjur hafa eru aðeins 256.500 kr. Þessar tekjur þykja það öflugar að taka verður af þeim skatt þannig að viðkomandi fær útborgað 221.000 kr. eftir að búið er að skerða þessa lúsaframfærslu upp á 256.500 kr. Það er í rauninni sárara en tárum taki að árið 2020 séum við enn að berjast fyrir því að reyna að brjóta fátæktargildruna utan af fátækasta fólkinu í landinu. Það er algerlega með hreinum og klárum ólíkindum. Á undanförnum árum hefur framfærslukostnaður stóraukist, ekki síst húsnæðiskostnaður, en á sama tíma hafa greiðslur almannatryggingakerfisins alls ekki fylgt almennri launaþróun í landinu. Um hver áramót fá almannatryggingaþegar þessa lögbundnu leiðréttingu vísitölu á bilinu 3,2, 3,3, 3,5%, en að þeir fái kjarabót? Nei, Það er ekki í boði þessarar ríkisstjórnar, það er engin kjarabót. Samt sem áður er því haldið fram að almannatryggingaþegar hafi bara aldrei haft það betra og aldrei hafi annað eins verið fyrir þá gert. Það sem öryrkjar hafa til framfærslu hefur skerst um 29% miðað við launaþróun á síðasta áratug. Kjaragliðnun almannatryggingaþega miðað við almenna launaþróun í landinu er hvorki meira né minna en 29%, tæpur þriðjungur, takk fyrir. Árið 2018 voru tæplega 6.000 eldri borgarar með undir 293.000 kr. á mánuði í tekjur áður en farið var að tæta af þeim skatt. Stórir þjóðfélagshópar búa við mikla fátækt. Þá hefur persónuafsláttur lækkað hlutfallslega með tilliti til verðlags og launaþróunar. Áður fyrr voru skattleysismörk hærri en óskertur lífeyrir almannatrygginga. Nú eru skattleysismörk við 156.000 kr. Eftir að mánaðartekjur eru orðnar 156.000 kr., virðulegi forseti, er orðið tímabært að greiða til samfélagsins. Þá er tímabært að borga skatta, jafnvel þótt 200.000 kall á mánuði fari í húsaleigu því að varla hefur einstaklingur með þessar tekjur möguleika á því að fara í greiðslumat og kaupa sér íbúð, alls ekki.

Skattleysismörk eru því töluvert lægri en grunnlífeyrir. Það er nokkuð ljóst. Afleiðingarnar eru stóraukin skattbyrði þeirra lægst launuðu. Almannatryggingakerfið á að tryggja þeim sem á þurfa að halda grundvallarmannréttindi, þ.e. fæði, klæði og húsnæði. Ríkisvaldið á ekki að dæma einstakling í ævilanga fátækt eftir að viðkomandi er svo ólánsamur að verða t.d. öryrki. Ríkisvaldið á heldur ekki að dæma okkur í endalausa fátækt og áhyggjur síðasta ævikvöldið, bara af því að við göngum yfir þá línu að teljast eldri borgarar. Það er nauðsynlegt að hækka lágmarksframfærsluviðmið almannatrygginga svo að það taki utan um og verndi með viðhlítandi hætti þá sem verst standa og mest þurfa á hjálp að halda. Það þarf að gera með tvennum hætti, þ.e. með því að hækka skattleysismörk og síðan með því að hækka lágmarksviðmið almannatrygginga til að ná því sem upp á vantar.

Nú ætla ég að vísa beint í stjórnarskrá íslands, lög nr. 33/1944, en samkvæmt 1. mgr. 76. gr. skal öllum sem þess þurfa tryggður réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra aðstæðna. Þessi vernd sem stjórnarskráin veitir okkar minnstu bræðrum og systrum er ekki virt. Hún er ekki virt. Það er löngu orðið tímabært að fjármunum verði forgangsraðað í þágu þeirra sem mest þurfa á þeim að halda. Því er lagt til að löggjafinn tryggi að lífeyrisþegar almannatrygginga hafi ráðstöfunartekjur sem nemi a.m.k. 350.000 kr. á mánuði, skatta- og skerðingarlaust. Því minna má það ekki vera.