151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr. og 350.000 kr. lágmark til framfærslu lífeyrisþega.

46. mál
[20:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar frá Flokki fólksins um skattleysi launatekna undir 350.000 kr. og 350.000 kr. lágmark til framfærslu lífeyrisþega. Ef við förum aftur í tímann til 1988 þá var staðan sú að lífeyrislaun voru skattlaus. Þau voru ekki bara skattlaus, persónuafslátturinn dugði vel fyrir þeim, heldur var einnig afgangur upp á 30% til að nota upp í lífeyrisgreiðslur, eða aðrar tekjur. Það sýnir okkur svart á hvítu hvernig skattkerfið hefur farið með þá sem verst hafa það. Það sýnir okkur svart á hvítu að þeir sem minnst hafa eiga ekki að borga skatt, við skulum líka átta okkur á því.

Ef settar eru fram ákveðnar tölur sem eru ekki bara undir fátæktarmörkum heldur komnar í sárafátæktarmörk og þær tekjur skattlagðar líka þá eru hlutirnir komnir í fáránlegan farveg og það er eiginlega ekkert annað en fjárhagslegt ofbeldi gagnvart þeim sem síst skyldi. En síðan er það sett í fleiri búninga, krónu á móti krónu skerðingu sem er að vísu búið að færa niður í 65 aura á móti krónu, alls konar skerðingar settar í kerfið, ekki bara ein heldur keðjuverkandi skerðingar og þær eru svo keðjuverkandi að þær takmarkast ekki einu sinni við ríkiskerfið heldur hlaupa þær yfir í félagslega bótakerfið hjá sveitarfélögunum. Þessum ótrúlegu brellum hefur fjórflokkurinn beitt. Lífeyrisþegar og aðrir væru miðað við þetta í ágætismálum ef þeir væru á sama stað í dag og þeir voru 1988. Ef staðan væri sú í dag að það væri skattlaust sem væri verið að borga í það, auk þess að fólk ætti 30% upp í einhverjar aðrar tekjur, hvort sem það væru lífeyristekjur eða annað, getum við rétt ímyndað okkur í hvaða stöðu fólkið þarna úti væri í dag ef þetta kerfi hefði verið.

Með því sem við erum að leggja fram núna, þessum 350.000 kr., er nokkurn veginn verið að koma þessum tölum til nútímans. Við erum með alveg stórfurðulegt kerfi. Við segjum að öryrkjar eigi að vera með 256.000 kr., þeir sem hafa lægstar bætur, sumir eru nú enn lægri vegna búsetuskerðingar. Síðan erum við með rétt um 300.000 kr. fyrir atvinnulausa. Síðan erum við núna að koma lægstu launum á vinnumarkaði í 350.000 kr. Við erum með 413.000 í listamannalaun. Síðan erum við með 400.000–600.000 fyrir þá sem eru á hlutabótaleið vegna Covid. Það er eins og kerfisbundið sé verið að mismuna fólki gróflega. Auðvitað kemur alltaf upp að það myndi kosta einhverja milljarða ef þetta yrði gert, að 350.000 kr. tekjur yrðu skatt- og skerðingarlausar, sem er engin ofrausn, við vitum það. Það vita allir að það er engin ofrausn, langt frá því. Það myndi hreinlega gera það að verkum að flestir gætu nokkurn veginn lifað eðlilegu lífi, það er nú ekki meira en það. Sagt er að þetta muni kosta einhverja rosalega milljarða.

En það furðulegasta við það er að sagt er að þetta kosti svo mikið að það sé alveg óframkvæmanlegt, að þetta sé svo dýrt. Þá skulum við bara fara aðeins aftur í tímann. Það er ekki svo langt síðan laun voru hækkuð hérna stórlega. Við getum tekið sem dæmi forsætisráðherra sem fékk 869.805 kr. hækkun upp í 2.000.021 kr. Þetta voru launin 1. maí 2019. Þetta er samanlögð hækkun á mánuði frá 2012–2018. Ráðherrar hækkuðu um 785.129 og voru komnir í 1.826.000 kr. 1. maí 2019. Þingmenn hækkuðu um 547.635 og fóru í 1.100.194 kr. Óskertur lífeyrir almannatrygginga er sagður hafa hækkað svakalega en það var rétt um 10% af öllu hinu, um 63.648 og fór í 247.000 kr. Það eru nú öll ósköpin. Lágmarkstryggingin í dagvinnu hækkaði um 96.000 kr. og atvinnuleysisbætur um 97.000 kr. Þegar ráðherrar og þingmenn fengu sína hækkun þá sagði enginn: Heyrðu, þetta kostar milljarða. Eða þegar ráðuneytisstjórarnir fengu sína hækkun, þá var enginn sem öskraði: Þetta kostar milljarða. Þá virðist vera algjörlega sjálfsagt að hægt sé að setja peninga í það.

Það er eiginlega stórfurðulegt hvernig öllu hefur verið kippt úr sambandi eins og ef við tökum núna fjárlögin, það sýnir einfaldlega hversu vitlaust kerfið er. Við erum að hækka lægstu launin í lífskjarasamningunum um 20.000 kr. en með einhverri ótrúlegri brellu er hægt að segja að öryrkjar eigi næst að fá almannatryggingahækkun upp á 3,6%. Á sama tíma stendur í fjárlagafrumvarpinu að áætlaðar séu launahækkanir upp á 5,1%. Hvað segir hæstv. fjármálaráðherra þegar hann er inntur eftir því hvernig í ósköpunum standi á þessum mismun? Jú, hann skýrir það með kjaraskriði, það sé 1,7% af þessu. Þess vegna eigi öryrkjar ekki að fá kjaraskrið. Það er skýringin. Þess vegna vantar núna 30% upp á lífeyrislaun, vegna kjaragliðnunar, en hæstv. fjármálaráðherra myndi segja: Þið eigið ekki að fá kjaraskriðið. Þið eigið ekki að fá það sem er að skríða ekki neitt, hækkanirnar sem ég var að tala um áðan eru ekkert smávegis kjaraskrið. Öryrkjar og lífeyrisþegar hækka um 60.000 þegar hinir eiga að hækka frá 550.000 upp í nær 900.000 kr. Er þetta kjaraskriðið sem við vorum að fá en allir hinir fá ekki? Það stenst ekki á nokkurn hátt.

Það er eiginlega alveg með ólíkindum. Ef við horfum á þessar tölur erum við ekki að tala um neinar rosalegar upphæðir, 350.000 kr. eru ekki stór upphæð og við erum líka að tala um að persónuafslátturinn hætti við 945.873 kr. En hvað er ríkisstjórnin að gera? Hún er að leika sér með persónuafsláttinn, leika sér með prósentuhækkun á skatta. Hún lækkar miðað við prósentuhækkun með vinstri hendinni, en kemur svo og lækkar persónuafsláttinn með hinni og segir: Þið fáið svo rosalega mikið. Ríkisstjórnin var að hæla sér af því að það yrðu alveg rosalegar góðar skattbreytingar sem þeir sem eru á lægstu lífeyrislaunum fengju núna um næstu áramót, alveg gífurlegar, heilar 2.950 kr. Það merkilegasta við það er að við hin sem erum á hærri launum fáum miklu meira þannig að enn eina ferðina eru blekkingar notaðar. Til þess að koma þessu máli og svona málum í gegn þurfum við að losna við fjórflokkinn sem hefur undanfarið verið við völd vegna þess að á meðan hann er við völd breytist þetta ekki neitt.