151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

almannatryggingar.

84. mál
[21:04]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Stysta málið í þessari lotu. Þetta er frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar, um afnám skerðingar lífeyris vegna miskabóta. 1. gr. hljóðar þannig:

„Við 2. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Við útreikning á fjárhæð bóta samkvæmt þessum kafla og ráðstöfunarfjár skv. 48. gr. skal ekki reikna með miskabætur sem lífeyrisþega eru dæmdar.“

Með frumvarpi þessu er lagt til að miskabætur sem einstaklingum eru dæmdar komi ekki til skerðingar á lífeyri þeirra samkvæmt lögunum. Það var áður lagt fram á 149. og 150. löggjafarþingi og er nú lagt fram að nýju óbreytt.

Markmið frumvarpsins er að styðja öryrkja og ellilífeyrisþega með því að koma í veg fyrir skerðingu lífeyris vegna miskabóta sem þeim eru dæmdar vegna áfalla sem þeir lenda í.

Þau tilvik sem verða til þess að einstaklingi eru greiddar miskabætur eru ófyrirsjáanleg. Ekki er því um eiginlegan kostnað að ræða fyrir ríkissjóð heldur verður kostnaðurinn í formi þess að ekki kemur til endurgreiðslu á lífeyri vegna dæmdra miskabóta. Er kostnaður því ekki meiri en hefði verið hefðu miskabætur ekki verið dæmdar.

Hér þarf kannski að gera athugasemd varðandi orðalagið, það getur kannski verið túlkað sem of formlegt. Þar sem ég segi að ekki skuli reikna með miskabætur sem lífeyrisþega eru dæmdar á ég ekki einungis við ferli í dómstólum. Það geta einnig verið tilboð um miskabætur án þess að viðkomandi hafi farið í gegnum dómsferli. Það komu athugasemdir frá Öryrkjabandalaginu sem benti á að það eru ákveðnir stafliðir í lögunum sem gætu bent til þess að miskabætur séu einmitt ekki skertar. En þetta dæmi kom eftir ábendingu frá aðila sem hafði átt í erfiðleikum með þetta út af boði um miskabætur, í raun sátt um miskabætur, sem hafði ekki farið í gegnum dómstóla. Þarna þarf kannski að huga að því að orðalagið skemmi ekki fyrir þannig að það eigi bara við um dómstólaleiðina þar sem miskabætur eru dæmdar eða miskabætur sem eru ákveðnar eða boðnar í gegnum sátt. Með frumvarpinu er í raun ætlað að taka af þann vafa sem gæti verið vegna þess munar sem þar er að finna. Ég treysti nefndinni fullkomlega til þess að sjá hvort það sé eitthvað í þessum liðum sem nú þegar eru í lögum og því ferli sem gæti orsakað að miskabætur sem fara annaðhvort í gegnum sátt eða eitthvað því um líkt myndu ekki falla undir þá stafliði.

Ég hlakka til að sjá það afgreitt og ef lögin eru skýr hvað þetta varðar þá væri gott að fá áréttingu um það því að ástæðan fyrir því að málið er flutt eru þessi misvísandi skilaboð.