151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

tekjuskattur.

86. mál
[21:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Áhugavert mál, líka þessar sambærilegu heimildir í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Ég velti fyrir mér að kostnaður við þetta fyrir ríkissjóð er væntanlega sá sami ef farið er í hina áttina. Í staðinn fyrir að veita þeim sem kaupir þjónustuna skattalegan frádrátt væri alveg eins hægt að borga aukalega fyrir skil á virðisaukaskattsskýrslum eða þvílíku frá þeim sem vinnur starfið. Þá er ekki verið að láta þann sem kaupir þjónustuna fá endurgreiðslu, því fylgir ákveðið umsagnarferli og vesen. Það er einfaldara að þegar slíku verki er skilað sé einfaldlega gefinn ákveðinn afsláttur eða aukagreiðsla jafnvel með þeim skilum. Það er að einhverju leyti einfaldara í framkvæmd, myndi maður halda, þar sem rétturinn til endurgreiðslunnar fæst einungis ef viðkomandi sækir um. Ýmislegt gæti farið forgörðum í því. Einhverjir kunna ekki að fara í gegnum ferlið eða eitthvað svoleiðis og missa af rétti á endurgreiðslu meðan skilin koma alltaf sjálfkrafa um leið og skilað er inn vinnuskýrslu til Skattsins. Það er í raun fullkomin skilvirkni þar.