151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

tekjuskattur.

86. mál
[21:18]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er bara ósammála hv. þingmanni. Ég ætla að taka dæmi, af því að hv. þingmaður vék að útseldri vinnu iðnaðarmanna. Við tókum þá ákvörðun í vor að endurgreiða virðisaukaskatt af vinnu iðnaðarmanna á byggingarstað upp í 100%, að fullu. Skynsamleg aðgerð. Hver hefur reynslan verið? Jú, við vitum það t.d. að sum sveitarfélög sjá útsvarstekjur sínar hækka vegna þess að það var ekki hvati til að skilja undan vinnuna. Það var hvati til að gefa vinnuna upp vegna þess að sá sem var að kaupa þjónustuna hafði engan hag af því að taka þátt í starfsemi sem var svört heldur þvert á móti.

Þegar við lækkuðum endurgreiðsluhlutfallið úr 100% í 60% árið 2015, ef ég man rétt, hvað gerðist þá? Þá urðu virðisaukaskattsskil af vinnu iðnaðarmanna lægri en áður. Tryggingagjaldsgreiðslur af slíkri vinnu urðu lægri og ríkissjóður tapaði þó að hann lækkaði endurgreiðslur af virðisaukaskatti. Það var orðinn hvati fyrir þann sem keypti þjónustu að taka við þeirri þjónustu og greiða hana án þess að reikningur væri gefinn út. Það er einmitt þess vegna sem við flutningsmenn frumvarpsins leggjum til þessa leið. (Forseti hringir.) Og ég heyri það á hv. þingmanni að hann er í grunninn sammála því að það eigi að koma til móts við þá sem þurfa að kaupa þjónustu vegna aðstoðar á heimili.