153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

frumvarp til útlendingalaga.

[10:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra fór hér ágætlega yfir og ítrekaði í raun áhyggjur mínar af málaflokknum og hvernig hann hefur þróast, en það var fátt um svör um hvernig brugðist yrði við. Vonin er sú að kerfið fari að virka eins og kerfið á að virka. Það geta væntanlega allir verið sammála um að það þurfi til að byrja með að láta kerfið virka eins og það á að virka. En hvernig ætlar ríkisstjórnin, Sjálfstæðisflokkurinn auðvitað ekki hvað síst, að bregðast við? Hvers er að vænta? Hvenær kemur frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra? Verður búið að bæta það frumvarp þannig að það hafi meiri áhrif en það myndi gera eins og við sáum það síðast birtast? Og er hæstv. ráðherra tilbúinn til að ráðast í lagabreytingar, lagfæringar til að ná tökum á þessu stjórnleysi sem ríkir í málaflokknum?