153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

frumvarp til útlendingalaga.

[10:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Frumvarpið sem vísað er til hefur verið afgreitt úr þingflokki Sjálfstæðismanna. Varðandi efnislegt innihald þess þá hefur stofninn að þessu frumvarpi legið fyrir Alþingi án þess að Alþingi gæti afgreitt það. Ég held að það hafi komið fram fjórum sinnum, í fjögur skipti. Ráðherrann er að reyna að finna leiðir til að fá umbætur á lagaumgjörðinni án þess þó að ætla sér bara að skalla vegginn og vera óraunsær um það hvað Alþingi er tilbúið að gera. Hann er að reyna að vera raunsær um það hvaða breytingar er hægt að fá í gegn hér með lagabreytingum, en þar fyrir utan grípur ráðherrann til margvíslegra annarra ráðstafana. Það hefur t.d. með það að gera að við landamæraeftirlit fái menn farþegalista þannig að hægt sé að samkeyra gagnaskrár með löggæslu og landamæraeftirliti í öðrum löndum og finna þannig þá einstaklinga sem sérstök ástæða er til að taka til athugunar og fjölmörg önnur slík atriði, m.a. þarf að fjármagna betur landamæravörsluna og löggæsluna, almennu löggæsluna í landinu. Við erum núna með um 40 gæsluvarðhaldspláss uppfull sem ættu í raun og veru að vera nýtt í öðrum tilgangi þannig að við þurfum að bregðast við á mörgum vígstöðvum.