153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

útrýming fátæktar.

[10:45]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Eins og ég hef áður bent á hér í ræðupúlti Alþingis í þessari viku var síðasti mánudagur dagur útrýmingar fátæktar og ég fullyrti að ríkisstjórnin hefði ekkert gert í málefnum fátæktar. Það er auðvitað rangt. Hún hefur gert ýmislegt til meiri bölvunar með því að auka skerðingar, með því t.d. að hækka ekki frítekjumörk þannig að hún hefur nú eitthvað gert til að valda enn þá meiri fátækt. Eldri borgarar okkar lands fengu ekki krónu í Covid. Þetta er hópur sem hefur algerlega verið skilinn eftir í okkar samfélagi. Allt Covid-tímabilið var ekki sett króna til eldri borgara. Þeir eru eins og afgangsstærð hjá ríkisstjórninni. Þeir eru kallaðir fráflæðisvandi, þeir eru einhvern veginn fyrir á hverjum tíma og ekkert gert til að sjá til þess að þeir geti lifað mannsæmandi lífi. Fátækt meðal eldri borgara hefur stóraukist. Þeir verst settu meðal eldri borgara sem eru á lægstu bótum og hafa verið á lágmarkslaunum alla sína tíð — við vitum að að þarna er fólk að reyna að lifa á undir 300.000 kr. á mánuði. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra: Er hann með eitthvað á döfinni til að gera eitthvað annað en að benda á launaþróun eða meðaltöl eða eitthvað? Er eitthvað í farvatninu með t.d. eingreiðslu, segjum 100.000 kr. eingreiðslu, skatta- og skerðingarlaust? Það væri það eina sem skilaði sér inn í almannatryggingakerfið. Eða er stefna ríkisstjórnarinnar sú að ekki eigi að útrýma fátækt eins og farið er fram á á degi útrýmingar fátæktar heldur að auka á fátæktina?