153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

gjafir til Bankasýslunnar.

[10:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Stutta svarið við þessu er að ef um slíkar gjafir er að ræða þá þurfa þær að vera innan hóflegra marka og í einhverjum eðlilegum tengslum við störfin. Eins og t.d. ef um er að ræða hádegisverð eða eitthvað slíkt þá finnst mér það ekki vera þannig að eðli eða umfangi að það eigi að varpa mikilli rýrð á störf Bankasýslunnar. Við skulum hafa í huga hér að það viðskiptasamband, sem hv. þingmaður vísar til, milli Bankasýslunnar annars vegar og söluráðgjafa hins vegar, snýst í raun og veru um viðskiptamál. Það hefur ekkert með hina eiginlegu sölu ríkiseignarinnar að gera sem endar hjá öðrum aðilum, þ.e. kaupendum eignarinnar. Hérna er væntanlega verið að gefa í skyn að þarna séu menn að kaupa sér einhverja velvild til að fá að taka þátt í sölumeðferðinni og þiggja fyrir það einhverja þóknun. Það er stjórn Bankasýslunnar sem ber ábyrgð á heildareftirliti með slíkri samningagerð og mögulegum hagsmunaárekstrum sem kunna að skapast. Stutta svarið mitt við því hvort það sé heppilegt eða æskilegt að um sé að ræða gjafir eða þóknanir af einhverju tagi, hvort sem er í formi hádegisverðar eða með öðrum hætti, er að það beri að fara mjög varlega í öllu slíku.