153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

gjafir til Bankasýslunnar.

[10:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er augljóst að í svona málum eru einfaldar reglur langbestar. Mér finnst reglan sem vísað er til hjá Ríkiskaupum vera prýðileg og hún hentar ágætlega. Ég ætla hins vegar að segja það sem mína skoðun að ég held að í því samfélagi sem við búum í, í þeirri menningu sem skapast hefur í þessu samfélagi, þá þykir það ekki vera mjög stórt tiltökumál ef einhver sendir öðrum rauðvínsflösku sem getur kannski haft verðmæti á bilinu öðrum hvorum megin við 5.000 kr. Ég held að það sé ólíklegt til þess að valda einhverjum úrslitaáhrifum á það hvort mönnum verði treyst til að taka að sér mikilvægt hlutverk eins og það sem við erum að ræða um hér. En þetta er alltaf matsatriði og við höfum sjálf sett okkur reglur hér, þingmenn og ráðherrar í þessum efnum, sem gera ráð fyrir því að gjafir sem eru tækifærisgjafir geta verið þess eðlis að ekki þurfi að halda sérstaka skrá yfir þær en aðrar sem eru yfir ákveðnu verðgildi þurfi að gefa upp. Það finnst mér vera skynsamleg regla og mjög skiljanleg. Þannig að þetta er á endanum matsatriði. Einfaldar reglur eru bestar og það ber að fara varlega, sérstaklega þegar um er að ræða svona mikla hagsmuni eins og eru undir hér.