153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[11:03]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er auðvitað rétt að það hefur mikið verið rætt um fjölmiðlana og mér finnst svolítið mikilvægt að við komumst á þann stað að við hættum að velta því fyrir okkur hvort það eigi að skapa hér eðlilegt umhverfi fyrir fjölmiðla heldur tölum frekar um hvernig eigi nákvæmlega að gera það.

Ég hef svolítið saknað þess að menn ræði um þessa hluti meira heildstætt. Við í Viðreisn lögðum t.d. fram þingsályktunartillögu þar sem kemur fram að það þurfi að skoða þetta allt saman í heild sinni vegna þess að ein stoðin, t.d. Ríkisútvarpið, hefur áhrif á hinar stoðirnar sem eru þá frjálsu miðlarnir. Samfélagsmiðlarnir koma inn í þetta og allt það þannig að það að styrkja bara einkarekna fjölmiðla skapar auðvitað ekkert svigrúm til fyrirsjáanleika til lengri tíma.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála því viðhorfi sem oft heyrist, og ég er ósammála, um að það verði í raun og veru að veikja RÚV til að styrkja einkareknu miðlana. Myndi það ekki frekar leiða til þess að heildarumhverfi fjölmiðla yrði veikara? Og ef menn fara í þá vinnu að skoða t.d. stöðu RÚV á auglýsingamarkaði, hvort það sé fyrirsjáanleg einhver sátt innan ríkisstjórnarinnar um það að tekjutapi vegna þess hjá Ríkisútvarpinu verði þá mætt þannig að báðar einingarnar verði sterkari á eftir.